151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Hv. þingmaður er glöggur, þetta er hárrétt reiknað hjá honum. Ég held að hv. þingmaður hafi komið inn á það í máli sínu að ekki er reiknuð aðhaldskrafa á málefnasviðið í heild. Framhaldsskólarnir eru sannarlega reiknaðir með 0,5%. Svo eru aðrir liðir á málefnasviðinu sem bera 2%. Fjármálaráðuneytið reiknar þetta. Þannig að með því að samþykkja tillögu hv. þingmanns værum við í raun og veru ekki að leysa málið. Það sem við viljum hins vegar fá er gagnsæi, og ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir að varpa ljósi á það ógagnsæi sem er í málinu. Fjárlaganefnd hefur kallað eftir sundurliðun á þeim liðum sem útreikningurinn byggir á. Svo má bæta því við að hvert og eitt fagráðuneyti getur flutt aðhald á milli málefnasviða. Þetta verðum við að greina áður en við förum að fella eða samþykkja einhverjar breytingartillögur að þessu leytinu, en að samþykkja breytingartillögu hv. þingmanns myndi ekki leysa neitt. Eftir situr glöggskyggni hv. þingmanns, að varpa ljósi á þennan skort á gagnsæi. Ég hef þegar kallað eftir sundurliðun á því hvernig þetta er reiknað í ráðuneytinu. Svo þurfum við að spyrja fagráðuneytið nánar hvort einhverjir liðir hafi jafnvel verið fluttir til, eins og þeir hafa heimild til. Þannig að við leysum ekkert með því að samþykkja þessa tillögu. En hins vegar er bara jákvætt að draga fram þetta ógagnsæi sem við erum stundum að kljást við þegar við fjöllum um fjárlagafrumvarp. Og það er vel.