151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að lengja þessa umræðu. Ég ætla bara að kynna stuttlega breytingartillögu Samfylkingarinnar við 3. umr. Það er skemmst frá því að segja að við lögðum fram 13 breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga og þær voru allar felldar. Nú gerum við lokatilraun til að bæta aðeins úr og þessar tillögur eru ekki umfangsmiklar en þær eru mikilvægar.

Fyrsta tillagan lýtur að málefnum eldri borgara. Við höfum fengið áskoranir frá þessum hópi um að fá sömu kjarabætur og aðrir hópar samkvæmt lífskjarasamningunum. Eldri borgarar kalla eftir að bætur til þeirra hækki um 15.750 kr. á mánuði. Það er fullkomlega eðlileg krafa sem Samfylkingin tekur heils hugar undir. Við fluttum sambærilega tillögu hér við 2. umr., hún var felld. Nú reynum við aftur og gefum stjórnarþingmönnum tækifæri til að hlusta á 45.000 eldri borgara í þessu landi.

Önnur tillagan er að hækka fæðingarstyrk. Fæðingarstyrkur er skammarlega lág upphæð sem einstaklingar fá þegar þeir eru í námi eða að öðru leyti utan vinnumarkaðarins. Þetta eru 80.000–100.000 kr. Við leggjum hér til að þetta hækki, annars vegar varðandi fólk sem er í minna en 25% starfshlutfalli sem er bara með 83.000 kr., það fer upp í 100.000 kr., þetta er ekki neitt neitt í rauninni, og hins vegar leggjum við til að foreldri í fullu námi sem fær núna fæðingarstyrk upp á 190.000 kr. geti fengið 205.000 kr. Þetta er nú ekki mikið, herra forseti, þetta er svo lítið að maður hálfskammast sín að leggja það til. En þetta er hins vegar tilraun til að fá stjórnina til að hækka fæðingarstyrk með einhverjum hætti. Þessi tillaga kostar 75 milljónir. Þetta skiptir þennan hóp miklu máli og hér mætti gera miklu meira.

Þriðja tillaga Samfylkingarinnar við 3. umr. fjárlaga er áhugaverð, hún fjallar um að auka fjárveitingar til hjálparsamtaka um 200 millj. kr. Við höfum tekið svona skref áður, ekki síst rétt fyrir jólin. Við sjáum það að vegna kórónuveirufaraldursins hefur ásókn í matarúthlutanir stóraukist og það er ákall til okkar í fjárlaganefnd og til þingsins að auka bolmagn samtaka til að standa að matarúthlutunum. Hugsið ykkur, það er verið að tala um fólk sem vantar mat fyrir jólin. Það gerist í rauninni ekki sorglegra, dapurlega, jafnvel dramatískara en það, þetta eru samtök sem byggjast á sjálfboðavinnu, hvort sem það er Mæðrastyrksnefnd, kirkjan, Hjálpræðisherinn, fjölskylduhjálpin o.s.frv., það eru langar biðraðir í okkar ríka samfélagi eftir mat. Auðvitað á enginn að þurfa að treysta á matarúthlutanir en núna er nauðsynlegt að styðja enn betur við hjálparsamtökin, ekki síst í ljósi þess ástands sem er núna í samfélaginu, 20.000 manns atvinnulaus, og það þrengir að ýmsum hópum í þessu samfélagi.

Þetta eru þrjár skýrar, alls ekki dýrar, tillögur sem við gefum þingheimi öllum tækifæri til að samþykkja. Ég vil rifja það upp að Samfylkingin var bara með eina breytingartillögu við fjármálaáætlun sem var rædd í gær. Hún var risavaxin, miklu stærri en þessar. Hún laut að því að auka fjárframlög til umhverfismála um 30%. Allir flokkar á þingi felldu þá tillögu fyrir utan Samfylkinguna, það var svolítið áhugavert. Það var tillaga sem við í Samfylkingunni lögðum fram við fjármálaáætlun sem var tekin til afgreiðslu í gær. En nú erum við að tala um fjárlög og ég kalla eftir stuðningi þingmanna við þessar þrjár tillögur.

Herra forseti. Ég ætla að enda á jákvæðari nótum vegna þess að þetta er væntanlega ein af síðustu ræðunum sem verða haldnar á þessu ári í þessum sal og það er ágætt að enda á jákvæðum nótum á því ömurlega ári sem 2020 er. Mig langar aðeins að fara yfir hvað Samfylkingin vill leggja áherslu á. Þetta er tiltölulega hratt. Samfylkingin hefur nefnilega lagt fram mjög metnaðarfullt og stórt plagg sem við köllum Ábyrgu leiðina. Það er aðgerðaáætlun til að bregðast við því ástandi sem nú er fyrir hendi. Við viljum skapa 7.000 störf, ekki bara 1.000 störf eins og ríkisstjórnin. Við viljum fjölga alls konar störfum eins og ég hef margítrekað farið yfir, bæði hjá hinu opinbera og einkageiranum.

Við höfum lagt fram tillögur um að lækka tryggingagjaldið, sem er skattur, þannig að hvert einasta fyrirtæki í landinu fái 2 millj. kr. afslátt af tryggingagjaldi. Það er svolítið sniðug hugmynd, þetta er eins og persónuafsláttur fyrir fyrirtæki. Öll fyrirtæki fengju 2 millj. kr. afslátt af tryggingagjaldi. Að sjálfsögðu myndi það gagnast hlutfallslega betur eftir því sem fyrirtækin eru smærri. Þetta er atvinnuskapandi skattalækkun í stað sértækra skattalækkana ríkisstjórnarinnar sem núna er að setja í forgang að lækka fjármagnstekjuskatt til hinna allra ríkustu.

Samfylkingin leggur áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki. Það þarf miklu oftar að huga að iðnaðarmanninum eða búðareigandanum eða litlu þjónustufyrirtækjunum. Þau eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi og gleymast allt of mikið. Við tölum allt of mikið um hagsmuni stóru fyrirtækjanna sem vegnar auðvitað ágætlega í ljósi stærðar sinnar en það eru litlu fyrirtækin og fjölskyldufyrirtækin sem gleymast. Tillaga eins og Samfylkingin leggur hér fram, að lækka tryggingagjaldið um tvær milljónir hjá öllum, væri mjög sniðug aðgerð. En því miður hefur hún verið felld af stjórnarflokkunum.

Við viljum líka styrkja fyrirtæki sem ráða fólk af atvinnuleysisskrá í stað þess að niðurgreiða uppsagnir eins og þessi ríkisstjórn gerir. Þetta er afskaplega sérkennilegt, ég hef hvergi annars staðar séð að verið sé að niðurgreiða uppsagnir. Það hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að gera. Sömuleiðis í þessari aðgerðaáætlun, þessu efnahagsplani Samfylkingarinnar, leggjum við mikla áherslu á að draga úr vinnuletjandi skerðingum gagnvart barnafólki og öryrkjum. Ég þarf ekki að segja það og það á ekki að koma neinum á óvart en Samfylkingin vill hækka atvinnuleysisbætur og grunnbætur til aldraða og öryrkja. Við sættum okkur ekki við að þessir stóru hópar; öryrkjar, hluti aldraðra og atvinnulausir, eigi að lifa á 260.000 kr. á mánuði. Það getur enginn og enginn í þessum sal treystir sér til að gera það. Við viljum styrkja sveitarfélögin sem sjá um nærþjónustuna sem okkur er svo annt um.

Við viljum innleiða hér græna atvinnustefnu með metnaðarfyllri loftslagsaðgerðum. Við viljum stofna grænan fjárfestingarsjóð, stórefla grænmetisframleiðslu og skógrækt. Við viljum hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar. Við viljum fjölga listamannalaunum enn meira og styrkja sviðslistafólkið. Þið sjáið að sprotarnir eru víða. Atvinnustefna Íslands þarf að vera fjölbreytileg, hún þarf að vera frumleg, hún þarf að vera skemmtileg og við þurfum að vera stórhuga. Við viljum stórefla hér nýsköpun og hátækniiðnað, lyfjaiðnaðinn, fjarheilbrigðisþjónustuna, tölvuleikjaiðnaðinn eða hvaða nafni sem það kallast. Núna þurfum við að skapa störf. Atvinnusköpun er helsta verkefni okkar sem erum í þessum sal og það skiptir svo miklu máli að við styðjum þá sprota sem eru fyrir hendi, styðjum sjóði eins og Tækniþróunarsjóð sem er einmitt vettvangur fyrir lítil fyrirtæki til að leita til.

Allt þetta er bara hluti af tillögum okkar sem við í Samfylkingunni höfum kynnt í sérstöku plaggi. Þetta veitir okkur þá nauðsynlegu viðspyrnu sem allir eru að bíða eftir. Það býr til skatttekjur og störfin sem okkur vantar sárlega. Þetta býr til tækifæri og von fyrir fólk sem er að missa vinnuna og hefur misst vinnuna. Við vitum að atvinnuleysi er ömurleg staða fyrir hvern sem lendir í því. Við vitum líka að atvinnuleysi kostar ríkissjóð. Hugsið ykkur: Eitt prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar 6,5 milljarða. Ef við náum að trappa niður atvinnuleysið þá spörum við, þá borgum við minna í atvinnuleysisbætur fyrir utan það að við erum að mæta fólki sem að sjálfsögðu vill vinna, vill vera virkt í samfélaginu, vill fá tekjur til að standa undir sínum lífsstandardi og skuldbindingum.

Að lokum, ég hef sagt þetta reyndar nokkrum sinnum, kallar Samfylkingin eftir því að við fjárfestum með myndarlegri hætti í fólki og fyrirtækjum. Við viljum auka hallann aðeins meira en hér stendur til og við viljum taka lengri tíma til að greiða hann niður. Ég hef sagt það áður og mun segja það aftur að stundum þarf að verja peningum til að búa til peninga og þær aðstæður eru einmitt núna. Þetta er það sem Samfylkingin kallar ábyrgu leiðina vegna þess að það er óábyrgt að gera of lítið í svona ástandi eins og ríkisstjórnin virðist vera að gera. Það væri ábyrgt að taka stór græn skref núna eins og Samfylkingin leggur til, þar sem vinna, velferð og græn uppbygging um allt land er okkar rauði þráður og ætti að vera rauði þráður allra. Þetta er leið úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar, herra forseti.