151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum hér á lokametrunum við afgreiðslu fjárlaga. Við í Viðreisn höfum tekið þátt í störfum fjárlaganefndar af alhug. Við höfum lagt margt gott til, teljum við. Það er margt gott í þessu fjárlagafrumvarpi og margt sem við vildum hafa öðruvísi, en um þetta er búið að hafa langt mál hér á fyrri stigum þessa máls og ég ætla ekki að orðlengja það frekar. Ég verð eiginlega að segja að ég er ekki í miklu stuði, ef ég má orða það þannig, til að fara í mikla pólitíska umræðu um þetta. Ég læt duga það sem við höfum sagt fram að þessu.

En mig langar til að nota tækifærið, vegna þess að hér fyrr í kvöld gerði ég að umtalsefni ástandið á Seyðisfirði og þær hörmulegu fréttir sem við höfum fengið þaðan af miklu tjóni. Sem betur fer virðist ekki hafa orðið manntjón eða fólk slasast og fyrir það megum við öll þakka. En við erum auðvitað öll slegin yfir þessu og ég ræddi það hér hvort ástæða væri fyrir hv. fjárlaganefnd til að koma sérstaklega saman til að ræða þessi mál nú á þessu stigi. Ég hef síðan átt samtöl við kollega mína þar og við höfum aðeins lauslega farið yfir þessi mál. Ég hef fengið fullvissu fyrir því að hér stöndum við öll saman í þinginu um að þarna þurfi að bregðast við. Sem betur fer er til fé í varasjóðum sem hægt er að grípa til og við erum með hamfarasjóð sem einnig er hægt að grípa til. En ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að það er einhugur í fjárlaganefnd og ég reikna með að það sé líka í þinginu öllu og ríkisstjórn, um að gripið verður til þeirra ráðstafana sem þarf fljótt og vel. Og þegar búið er að meta aðstæður og fara yfir málin mun ekki standa á Alþingi og ríkisstjórn að koma til aðstoðar og útvega það fé sem þarf til að koma — ég þori ekki að segja hlutunum í samt lag, en gera það þannig að sem fyrst verði hægt að fara í hreinsun og uppbyggingu og skoða hvaða ráðstafanir aðrar þarf að gera til að vernda bæinn fyrir öðrum áföllum af þessu tagi.

Mér þótti við hæfi að koma þessu á framfæri þar sem ég vakti máls á þessu og vil ítreka að það er fullur samhugur hér. Í þessu skiptir pólitíkin engu máli heldur erum við öll sameinuð um að við komum til aðstoðar. Þessu vildi ég koma á framfæri svo ekkert fari á milli mála.