151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[22:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Þegar Alþingi greiðir nú við lok 3. umr. atkvæði um fjárlög næsta árs er ljóst að við erum að samþykkja síðustu fjárlög kjörtímabilsins en við erum líka að binda endahnút á ótrúlega langt ferli. Við höfum samið fjármálaáætlun í tvígang, við höfum komið með fimm fjáraukalagafrumvörp hingað inn og við þurftum að leita samþykkis Alþingis fyrir því að fresta framlagningu fjárlagafrumvarpsins sem hefur síðan tekið ótrúlega miklum breytingum í þinginu. Ég vil bara segja fyrir mitt leyti að mér finnst að samstarfið hafi, þrátt fyrir þessar ótrúlega erfiðu og sérstöku aðstæður, verið mjög gott og nefndin hér í þinginu unnið merkilegt starf við erfiðar aðstæður. Ég hef trú á því að ríkisstjórnin sé með þessum fjárlögum að leggja grunn að viðspyrnu sem mun reynast okkur gríðarlega dýrmæt á komandi árum þegar við þurfum sem samfélag, sem hagkerfi, á vexti að halda.