151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir allt það sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sagði hér á undan um leið og ég fagna sérstaklega þessu máli og finnst ég vera að vissu leyti, og örugglega hæstv. forseta líka, ákveðin forréttindamanneskja að vera hér að 20 árum liðnum að greiða atkvæði og geta sagt já, ýtt á græna takkann og verið stolt yfir því að við stöndum áfram vörð um fjölskyldur en ekki síður jafnréttismál.

Þið hafið heyrt mig hér í dag ræða ákveðna sýn varðandi það að ég hefði viljað sjá önnur skref stigin varðandi jafnréttismál. Engu að síður, og í ljósi þess hvernig við í Viðreisn nálgumst hlutina, þá er þetta fagnaðarefni. Við erum ekki alveg fullkomlega sátt, ég tel að ákveðið skref aftur á bak hafi verið tekið en engu að síður skiptir þetta í stóru myndinni gríðarlega miklu máli. Við erum að fara upp í 12 mánuði og tryggja ákveðið öryggi fyrir fjölskyldur og það er fagnaðarefni, eitthvað sem við getum öll, þvert á flokka, tekið undir.