151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

framhaldsfundir Alþingis.

[15:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti býður hv. alþingismenn velkomna til fyrsta fundar að loknu jólahléi og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa á nýju ári. Búast má við annasömum tíma það sem eftir er þessa þings, enda liggja ýmis stórmál þegar fyrir Alþingi. Eins má áfram gera ráð fyrir því að óvenjulegar aðstæður nú um stundir, þ.e. heimsfaraldur sem áfram geisar, setji mark sitt á störf okkar og aðstæður næstu mánuðina a.m.k.

Ég vil greina frá því að fyrirkomulag þingfunda verður áfram með óbreyttu sniði og nefndafundir verða enn um sinn fjarfundir og gestakomur ekki leyfðar. Þá er grímuskylda áfram í öllum húsum Alþingis. Það er nauðsynlegt því að þrátt fyrir að staðan í kórónuveirufaraldrinum sé nokkuð góð hér á landi og bólusetningar hafnar er enn nokkuð í land með að starfsemin geti komist í hefðbundið form. Leiðarljós okkar hlýtur að vera það að gera allt sem mögulegt er til að halda megi Alþingi starfhæfu. Það væri vissulega ánægjulegt að geta setið öll saman hér inni í þingsalnum áður en þessu þingi lýkur í vor en framtíðin verður að skera úr um hvort það raungerist.

Ég vona að við getum í störfum okkar á komandi vikum og mánuðum átt áfram gott og uppbyggilegt samstarf og á slíkum grundvelli skilað landi og þjóð áfram góðu verki. Það tel ég að Alþingi hafi gert að undanförnu og tel að það hafi staðið sig mjög vel við sérstakar og krefjandi aðstæður.