151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

forsendur við sölu Íslandsbanka.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta tiltekna mál er ekki til umræðu hér í fyrsta sinn því að það var líka til umræðu snemma árs 2020 á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál að ráðast í sölu á hlut í Íslandsbanka. Það er áhugavert að nákvæmlega sami málflutningur kom þá fram, þ.e. að þetta væri bara akkúrat röng tímasetning. Þó var enginn á móti því að selja hlut í bankanum — eða kannski ekki enginn, flestir voru meðmæltir því að það væri í lagi að selja hlut í bankanum en þetta væri bara ekki rétta tímasetningin. Og mér finnst ég heyra þetta enduróma aftur; fæstir hafa á móti því að selja hlut í bankanum, bara ekki á þessum tíma.

Ég get ekki fallist á það sem hv. þingmaður segir, að þetta komi eingöngu í kjölfar þessarar einu línu í stjórnarsáttmála. Ég ætla að leyfa mér að rifja upp að hér var unnin hvítbók um fjármálakerfið og hún fékk töluverða umræðu í þingsal. Í henni voru margir mjög mikilvægir punktar, aðrir umdeildir og gagnrýndir. Eigi að síður er ekki hægt að segja að hér hafi ekki farið fram töluverð umræða um framtíð fjármálakerfisins. Við erum búin — og það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég, hafandi setið í efnahags og viðskiptanefnd alla vega á einhverjum tímapunktum, ekki satt? — bara á undanförnum árum að ráðast í gagngerar breytingar á umgjörð fjármálakerfisins á Íslandi, breytingar, eins og kemur fram í mjög ítarlegri skýrslu sem ég skilaði í kjölfar beiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, sem hafa gert það að verkum að þetta kerfi er allt annað kerfi en það var til að mynda þegar þessi mál voru hér til umræðu snemma á þessari öld.

Eitt af því sem þar skiptir máli er það frumvarp sem hér er til umræðu í þinginu um varnarlínu um fjárfestingar. Ég get bara ekki fallist á þær forsendur sem hv. þingmaður gefur sér í fyrirspurninni, að þetta sé tillaga sem detti af himnum ofan og hér hafi engin umræða farið fram. Hér hefur einmitt verið töluverð umræða um fjármálakerfið. Eigendastefna ríkisins hefur verið endurskoðuð, eins og hv. þingmaður þekkir líka, (Forseti hringir.) og þar liggja þessi áform öll hreinlega fyrir. (Forseti hringir.) Þannig að ég kannast hreinlega ekki við þetta ógagnsæi sem hv. þingmaður vitnar hér til.