151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega uppi óvissutímar. En hvenær lifum við einhverja vissutíma? Kannski gerðum við það, við héldum það kannski fyrir ári síðan, einmitt fyrir réttu ári. Þá héldum við að við værum að sigla lygnan sjó og það væri bara bjart fram undan en skyndilega kom kórónuveirufaraldur. Óvissan sem er uppi núna er ekkert yfirþyrmandi. Við erum komin með bóluefni og það sér fyrir endann á þessari krísu. Eða hvað var hv. þingmaður eiginlega að hugsa þegar hún mælti fyrir lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins fyrir mörgum árum síðan, 2012, þegar við vorum föst í höftum, þegar lánasöfn bankanna voru í sárum eftir hrunið, þegar við vorum í botnlausum hallarekstri og fjárfesting atvinnulífsins hafði ekki enn þá tekið við sér o.s.frv.? Þá mætti hv. þingmaður hingað og mælti fyrir því að það væri góður tími til að ákveða að selja bankana, selja eignarhluti ríkisins í bönkunum. En núna þegar liðin eru níu ár (Forseti hringir.) er hv. þingmaður, sem hefur sífellt talað um að óvissa væri til staðar, ár eftir ár, allan tímann, enn þeirrar skoðunar að óvissan sé of mikil.