151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Erindi mínu til þingsins lét ég fylgja greinargerð vegna sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Þar eru þessi markmið ágætlega skýrð, taldi ég. Ég taldi að við þyrftum ekki að lesa það aftur upp í þessari umræðu, en ég bendi bara á samantektina. Þar geta menn séð helstu markmiðin: Að minnka áhættu ríkisins, að efla virka samkeppni, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika, að minnka skuldsetningu ríkisins.

Það er svo sem hægt að segja og taka undir með hv. þingmanni að það er dálítið óvænt að í miðjum faraldri skyldu skapast aðstæður til að láta reyna á þetta mál sem hefur verið á dagskrá í meira en áratug með einum eða öðrum hætti, en auðvitað hafa aðstæður verið að breytast. En það hlýtur að vera jákvætt. Það er jákvætt að sjá það sem er að gerast á markaðnum. Það er jákvætt að sjá þessi vel heppnuðu útboð. Og hvað eigi að gera við peningana? Það er auðvitað augljóst að það mun draga úr hallarekstri ríkissjóðs. Það mun draga úr fjármögnunarþörf ríkissjóðs, (Forseti hringir.) það er betra að orða það þannig, og það skiptir mjög miklu máli.