151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eftir því sem andsvörum fjölgar: Er ekki langbest að taka aðeins hreinskiptnari umræðu um þetta og stilla þessu þannig upp að þeir sem eru á því að ríkið eigi allt bankakerfið, af því að það sé langbesta fyrirkomulagið, opni sig bara aðeins um það? Mér finnst hv. þingmaður vera að segja að það sé algerlega galin hugmynd að ríkið eigi ekki bara alla bankana, það hljóti að vera langbest, af því að þetta sé svo arðbær starfsemi. Spurt er: Hver er áhættan af því að eiga fjármálafyrirtæki? Ja, eigum við aðeins að rifja upp söguna í því efni? Eigum við kannski að rifja upp frá fyrri tíð um Útvegsbankann og þá stöðu sem þar kom upp hjá ríkinu? Eigum við að ræða um þau hundruð milljarða sem ríkið situr uppi með vegna Íbúðalánasjóðs, sem er lánastofnun sem gerir ekkert annað en að lána gegn fyrsta veðrétti í fasteignum? Við sitjum uppi með um 200 milljarða tjón á gamla lánasafninu. Ég spyr einfaldlega: Hvaða hugmyndafræði er hv. þingmaður að leggja til varðandi stefnu um eignarhald ríkisins?