151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði kannski of mikið áðan þegar ég sagði að hv. þingmaður virtist vera þeirrar skoðunar að ríkið ætti alltaf að eiga banka. Kannski er það svo að hv. þingmaður telur að við einhverjar aðstæður væri hægt að selja banka. Það er mín skoðun að nú sé góður tími til að stíga þetta skref, ekki að selja allan eignarhlutinn heldur að skrá bankann á markað, losa um tiltekinn hluta af eignarhaldi ríkisins og halda þannig opnum þeim möguleika að í framhaldinu, á næstu árum, sé hægt að losa enn frekar um eignarhaldið.

Kvartað er undan því að við gerum þetta ekki í réttri röð eða að takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir til að taka afstöðu til málsins. En allt er þetta í samræmi við lög um efnið. Við erum að leita álits þingsins og efna til þessarar umræðu þess utan til að undirbúa ferli (Forseti hringir.) sem taka mun nokkra mánuði. Það er auðvitað ekki hægt að koma til þingsins og segja: Við ætlum að selja eignarhluti bankans á einhverju tilteknu verði. Eru ekki allir sammála? (Forseti hringir.) Fyrst þarf að vinna ákveðna undirbúningsvinnu.