151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:29]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég umorði fullyrðingu hæstv. fjármálaráðherra áðan verður ekki horft fram hjá því að þeir sem tala fyrir því að selja núna eru einmitt þeir sem tala alltaf fyrir því að selja. Það virðist engin óvissa vera of mikil óvissa til að réttlæta ekki sölu, ég hef alla vega aldrei heyrt hæstv. fjármálaráðherra tala gegn sölu á nokkrum tímapunkti. Í ljósi þess að þetta er alltaf pólitískt deilumál og það er vissulega fólk sem vill alltaf selja og sumir sem vilja aldrei selja, og ég satt að segja stend á milli og veit ekki alveg hvað skal gera, þá langar mig til að sjá hlutlaus viðmið. En kann að vera að það sé bara enginn vilji fyrir hlutlausum viðmiðum því að þá þyrfti einhver sannleikur að liggja fyrir? Rökin sem hafa komið fram eru að það sé ekki hættulegt að selja núna. Gott og vel. Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru einhver rök fyrir því að það sé æskilegt á þessum tímapunkti? Þau rök hef ég ekki enn þá heyrt.