151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka til varna þegar sagt er að ég hafi á öllum tímum alltaf mælt með sölu. Það er bara rangt. Síðasta vor sagði ég til dæmis: Þetta er ekki góður tími til að ráðast í bankasölu, út af aðstæðum sem höfðu skapast. Ég sagði líka í upphafi þessa kjörtímabils: Það er ekki tímabært að hefja sölu á bankanum, við þurfum að dýpka umræðuna, ljúka ákveðnum kerfisbreytingum. Við ákváðum að ráðast í gerð hvítbókar sem lögð var fyrir þingið sem nauðsynlegur aðdragandi að því að taka ákvörðun til framtíðar. Það er hægt að segja að það hafi heldur ekki verið tímabært að selja 5% hlut í bankanum á sínum tíma meðan að 95% eignarhaldið var í fullkomnu uppnámi. Þannig að þetta er bara beinlínis rangt. Spurt er: Hvað mælir með því að æskilegt sé að selja bankann? Um það fjallaði ræða mín áðan. Um það fjallar eigendastefna ríkisins. Um það fjallar Bankasýslan í erindi sínu og greinargerð mín til þingsins fjallar einmitt um það. Ég hvet menn til að kynna sér þetta.