151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni svarið. Ég skal alveg viðurkenna það hér og nú að ég er að melta svarið. Ég er ekki alveg búinn að gera upp við mig rökleiðsluna í svarinu en langar þá að víkja að seinni spurningunni sem ég ætlaði að leiða af þeirri fyrri. Það er eðlilegt af því að hv. þingmaður kom inn á þýðingu lánshæfismats fyrirtækja fyrir vexti. Hvernig svo sem umræðan hefur verið síðastliðinn áratug um slík fyrirtæki þá skipta þau máli og það skiptir okkur máli hvert lánshæfismatið er. Ég hygg að þau meti það þannig að því fjölbreyttari sem fjármögnun ríkissjóðs er því traustari sé hún. Það er svona í og með spurning, og ég myndi gefa mér það. Er hv. þingmaður ekki sammála mér í því?

Ég er ekki sammála því að við séum að hlaupa til. Mér finnast gleymast í umræðunni í dag þeir sex mánuðir sem fram undan eru, áreiðanleikakannanir, mat, kynning fyrir fjárfestum, mjög opið og gagnsætt ferli þar sem við fáum loksins allar þær upplýsingar sem okkur dreymir um o.s.frv. Ég held að við ættum að huga að því að þingið verði upplýst sérstaklega í gegnum það ferli. Það sem mig langar síðan að spyrja um er skoðun hv. þingmanns á því, ef við horfum til lánshæfismats og lágvaxta, hvort þetta muni ekki einmitt styðja við stöðu ríkissjóðs þegar kemur að mati lánshæfismatsfyrirtækja inn í framtíðina og viðhalda lægri vöxtum.