151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við tölum hér um sölu á ákveðnum hluta, sem við vitum ekkert hver verður, í Íslandsbanka. Eitt er þó alveg víst, hann getur tæplega orðið undir 25% ef við eigum að skrá hann á hlutabréfamarkaðinn í Kauphöllinni, því að það er viðmiðið sem Kauphöllin setur sér, að um 25% eignarhlutur fyrirtækis sé skráður þar á markaðinn til að hann geti átt heima þar. Það er alveg ljóst að Flokkur fólksins er með skýra stefnu hvað varðar það ferli sem er núna í gangi um þessa sölu. Við segjum einfaldlega: Nei, það er alls ekki tímabært á þessu stigi málsins að fara í þessa sölu, bara alls ekki.

Mig langar að minna á að það var í febrúar fyrir réttu ári síðan sem breytingar á lögum um Bankasýslu ríkisins tóku gildi. Með lögum um nr. 88/2009 var sett umgjörð um Bankasýsluna. Markmið hennar var náttúrlega að taka utan um eignasöfnin og koma þeim í verð. Í 9. gr. var tekið fram sérstaklega að hún skyldi hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum eftir að hún var sett á laggirnar, í rauninni var ekkert sólarlagsákvæði eða neitt slíkt sem gilti fyrir það. En svo einkennilegt sem það var þá var Bankasýslan á flakki á milli ráðuneyta. Hæstv. fjármálaráðherra var fjármálaráðherra eftir að Bankasýslan hafði að mínu mati lokið sínu hlutverki og var ekki lögmæt lengur, sem gerðist 20. ágúst 2014, fimm árum eftir að lögin um Bankasýsluna voru sett. Eftir það seldum við hlut okkar í Arion banka, 13%, og síðan var hið fræga Borgunarmál, þannig að ég hef talið að það sé ekki allt eins og það á að vera.

Eitt er alveg á hreinu, traust almennings á stjórnvöldum er alveg niðri í kjallara. Traust almennings á fjármálafyrirtækjum er líka niðri í kjallara. Við erum ekkert búin að gleyma einkavæðingunni sem átti sér stað 2002–2003. Við erum ekki búin að gleyma henni. Við erum ekki búin að gleyma því að það liðu ekki nema sex ár þar til þessi frábæra einkavæðing kom öllu saman hreinlega á hausinn. Ný lagaumgjörð kom í kjölfarið 2012, þá tóku gildi ný lög um fjármálamarkaðinn til að reyna að sporna við því að hörmungar eins og lagðar voru á okkur og þjóðina í bankahruninu, efnahagshruninu 2008, endurtækju sig. Þær röksemdir sem lagðar eru fyrir okkur í miðjum heimsfaraldri eru að við þurfum að líta til þess að ná t.d. til okkar einhverju af því fjármagni sem við eigum bundið í eignum, eins og í þessu tilviki 25 milljarðar, hugsanlega 30, með sölu á 25% hlut í Íslandsbanka. Þá næðum við inn í rekstur okkar kannski 25–30 milljörðum. En það er líka uppsafnað eigið fé, yfir 40 milljarðar í bankanum, og okkur er í lófa lagið að taka út 25 milljarða þar í formi arðgreiðslna sem einn eigandi bankans. Þá myndum við í rauninni halda áfram að eiga bankann og bíða eftir betra tækifæri til að setja hann á markað.

Hér koma fram einstaklingar og segja: Við getum í rauninni ekki vitað hvað við fáum og hvert verðmætið er á markaði, hvers virði hluturinn er í bankanum, fyrr en við erum búin að auglýsa hann til sölu og sjá viðbrögð markaðarins við því. Það er alveg rétt. En þá kemur hitt sem háttsettir fulltrúar fjármálaráðuneytisins hafa sagt við okkur þegar þeir eru inntir eftir því. En ef við skyldum fá óviðunandi tilboð í hlutinn, hvað eigum við þá að gera? Eigum við þá að hætta við að selja? Auðvitað yrðum við að gera það. En á sama tíma eru skilaboðin skýr frá fulltrúum fjármálaráðuneytis: Það rýrir trúverðugleika okkar að vera rokka fram og aftur á markaði og segja: Heyrðu, við ætlum kannski að selja, bjóðið í þetta. En nei, við erum hætt við af því að þið bjóðið ekki nógu mikið.

Í öðru lagi langar mig að benda á að við höfum ekki hugmynd um hverjum á að selja og hversu mikið. Það er ekkert þak, það er ekkert gólf, það er ekki neitt. Eiga einstaklingar að fá að kaupa? Á venjulegt fólk í landinu að fá að kaupa einhvern hlut? Ef svo er, hve mikið? Fyrir 100.000 kr., fyrir 150.000 kr.? Hverjir eru það raunverulega sem geta keypt hlut í bankanum? Það er alveg ljóst að það eru mjög fáir, a.m.k. í ljósi þessarar tímasetningar sem einkennist af því að það er alger ómöguleiki þar, ómöguleiki fyrir okkur á þessum ljóshraða sem er varðandi málið, að ætla að reyna að auglýsa og draga að okkur erlenda fjárfesta og hvað þá erlenda banka. Eitt af því sem komið hefur fram í umsögnum er að þessi tími sé það knappur að því miður getum við ekki reiknað með því að sú staða komi upp að við fáum alvörusamkeppni, að erlendur banki eða aðili myndi veita hér einhverja viðspyrnu í formi samkeppni á markaði. Jú, það eru lífeyrissjóðirnir, virðulegi forseti. Lífeyrissjóðirnir eiga núna yfir 40% af öllum eignum í landinu og hlutabréfum. Þannig er nú komið fyrir þeim að þeir þurfa að ávaxta sennilega um 17 milljarða í hverjum einasta mánuði. Þetta lífeyrissjóðakerfi er þvílík peningamaskína, það eru 17 milljarðar á mánuði sem þeir þurfa að reyna að fjárfesta, peningar sem þeir verða að koma einhvern veginn fyrir. Þeir eru skyldugir til þess og lögin og reglurnar segja til að það verði að vera 3,5% ávöxtunarkrafa. Það sér náttúrlega hver heilvita maður að það er algjörlega óraunhæf krafa miðað við að stýrivextir séu komnir niður í 0,75%. En hvað um það, sú er staðan.

Og hvað eru lífeyrissjóðirnir? Jú, þeir eiga upp undir 40% af öllum fyrirtækjum. Þeir eru líka að lána sjóðfélögum sínum og þeir eiga líka slatta í Arion banka og svo er hugsanlegt að þeir verði stærstu kaupendurnir að Íslandsbanka. En þetta er allt saman eitthvað til að velta vöngum yfir. Við erum að reyna að sjá hverjir eiga nógu mikla peninga. Samherji á kannski nógu mikla peninga og lífeyrissjóðirnir eiga næga peninga. Þessir aðilar geta hugsanlega komið þarna inn. Ef það eru lífeyrissjóðirnir sem sitja með þennan eignarhlut að stóru leyti í Íslandsbanka, við hverja eru þeir þá að semja? Hvert er raunverulegt gildi þess að kaupa sig inn í fyrirtæki, vera í stjórn, hafa áhrif og bera ábyrgð á því að ávaxta féð sem hluthafarnir hafa lagt í það? Jú, það er að græða. Það er að reyna að græða sem mest, þannig að það segir sig sjálft að það myndi ekki vera spurning um hvort eigendum sjóðanna nýttist að eiga þessa hluti í bönkunum. Ég get ekki áttað mig á því hvers vegna það er eitthvað verra fyrir okkur, íslenska ríkið, að reka banka. Ég get ekki séð þessa ofboðslegu áhættu sem felst í því, því að í eina skiptið á öldinni sem allt fór í steik var þegar bankinn var einkavæddur. Við erum ekki búin að gleyma því. Hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrr í dag í óundirbúinni fyrirspurn við mig um Útvegsbankann, sællar minningar, að það ætti að líta til sögunnar og hvernig allt var þá í steik. Útvegsbankinn var bara allt annars eðlis. Þeir lánuðu sannarlega alveg grimmt til útgerða, þeir keyptu og fjárfestu í togurum og öðru slíku. Við erum bara á allt öðrum stað. Þótt ég sé nú oft talin gamaldags og ég veit ekki hvað, þá dettur mér ekki í hug að fara alla leið aftur á síðustu öld til Útvegsbankans til að reyna að réttlæta að það þurfi að selja banka.

Talandi um dreifða eignaraðild þá er ekkert í þessu sem bendir til þess, hvorki í umsögnum né viðtölum sem við í fjárlaganefnd höfum átt við aðila sem komið hafa að borðinu, að hér verði um dreifða eignaraðild að ræða. Ekki neitt. Það verða bara lífeyrissjóðirnir sem koma þarna inn og sennilega fáir. En það er algert lágmark að við sjáum um að reyna að ávaxta eins og kostur er það fé sem við eigum. Við fengum þetta í fangið árið 2015 vegna stöðugleikaframlagsins sem þá kom til eftir hrunið og allt það ástand. Enginn ætti að vera búinn að gleyma því hvar við vorum stödd þá, allra síst þær 12.000–15.000 fjölskyldur sem voru bornar út á götu og misstu heimili sín í þeim hroða. En staðreyndin er sú að við erum ekki búin að gleyma neinu. Við ætlum nú að taka þessar eignir okkar og selja, í þessu tilviki bara til að selja, bara af því að kapítalisminn talar, af því að það þarf að koma þessu einhvern veginn fyrir, af því að ríkið á ekki og má helst ekki reka fyrirtæki. Þetta er bara rugl, virðulegi forseti. Það er ekkert að rekstri bankanna. Ég ætla að benda á að bankarnir hafa aldrei skilað annarri eins arðsemi og öðrum eins gróða síðan fyrir efnahagshrun og á þriðja ársfjórðungi 2020. Við erum ekki enn þá búin að sjá uppgjör fjórða ársfjórðungs en ég bíð spennt eftir því. Ég bíð mjög spennt eftir því. Mér finnst í rauninni óábyrgt að kalla hér alltaf hreint: Selja, selja, selja.

Ég var að tala um Bankasýsluna, sem varð aftur lögmæt að mínu mati í febrúar árið 2020. Strax í mars var hún farin að leggja til að selja banka. Allt í lagi, það er markmið hennar að reyna að losa um ríkiseigur, til þess var hún sett á laggirnar. En svo drífur þetta aftur upp bara daginn sem við erum að fara í jólafrí, þá fáum við þetta í fangið. Og þvílíkur ljóshraði. Málið á að koma úr nefnd á miðvikudaginn kemur ef allt gengur eftir. Það er ekki eins og fjármálaráðherra hafi ekki heimild í fjárlögum til að selja hreinlega allan bankann ef honum sýnist svo. Hann getur bara selt þetta allt saman. Við erum búin að samþykkja það með fjárlögunum. En það er jú skylda til þess líka að hann afli ákveðinna umsagna frá bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd í þessu tilviki. Ég vil meina að meiri hluti þessara nefnda gæti sagt: Við viljum aðeins bíða og sjá til, við erum í miðjum heimsfaraldri. Engri þjóð hefur dottið það í hug að reyna að selja banka eða eitt eða neitt í miðjum heimsfaraldri nema náttúrlega okkur, Íslendingum, náttúrlega Sjálfstæðisflokknum, af því að þetta er svo frábært.

Það er með hreinum ólíkindum að við skulum ekki fá lengri tíma til að ræða þessi mál. Það er alveg sama hvað við segjum í stjórnarandstöðunni, það er nákvæmlega sama hvaða rök liggja hér á borðinu, við sjáum að öll rök sem liggja hér á borðinu eru hlaðin rökleysu. En það skiptir engu máli, virðulegi forseti, af því að þetta verður selt hvort sem er. Þeir eiga þetta og þeir mega þetta. Þeir eru í meiri hluta og það er lýðræðið. Það á bara að selja þetta hvað sem tautar og raular, hvort sem það er traust og trúverðugleiki á bak við. Nei, það á bara að taka sénsinn. Það er líka frábært, virðulegi forseti, að það skuli vera gert núna rétt fyrir kosningar, korteri í kosningar.

En þá ætla ég líka að segja þetta: Vei þeim ef lánasöfnin sem eru fryst verða sett á brunaútsölu þannig að einhverjir ákveðnir aðilar með fulla vasa af peningum geti nýtt sér það að fjárfesta í frosnum lánum þeirra sem eru á ís til að reyna að koma þeim í var, sérstaklega ferðaþjónustufyrirtækjum. Vei þeim ef þeir ætla síðan að innheimta þau lán að fullu og ráðast á þessi sömu fyrirtæki vegna þess að þeir hafa fengið heimild, hverjir svo sem það verða, til þess að hirða þessar eignir á brunaútsölu. Ég ætla að vona að við eigum aldrei eftir að þurfa að horfa upp á nákvæmlega það sem við þurftum að horfa upp á í síðasta efnahagshruni. Ég ætla bara að vona það. En ég get ekki séð neina tryggingu, hvergi í lögum eða neins staðar, að það sé tryggt að þannig verði ekki farið með þessa frystingu á lánunum. Ég get ekki séð það.

Virðulegi forseti. Ég er algerlega skýr með þetta. Við fáum ekki einu sinni tækifæri til að skoða hvort það sé eitthvað annað í stöðunni. Var t.d. hægt að sameina þessa banka? Við eigum tvo, næstum því. Var hægt að sameina þá? Nei. Er það samþjöppun á markaði? Það er ekki nógu mikil samkeppni. En er ekki stjórnvöldum, sem ráða yfir 60% af fjármálamarkaðnum, í lófa lagið að veita alvörusamkeppni, skapa alvörusamkeppnisgrundvöll á fjármálamarkaðnum? Eða er nóg að segja: Við lækkum stýrivexti í 0,75%, sjáið bara hvað vextirnir eru lágir? En á sama tíma erum við samt að borga hátt í 5% vexti hjá viðskiptabönkunum og 0,05% fáum við í innlánsvexti, ef það fer ekki alveg niður í 0,02%. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi verið að lækka bankaskatt og gert allt sem í hennar valdi stendur til að reyna að aðlaga enn þá frekar og tryggja enn þá betur rekstur bankakerfisins, bankanna sem eru að springa af peningum, virðulegi forseti, svo það sé algerlega á hreinu. Þeir eru að springa af peningum.