151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Ég sagði það hér í upphafi að það væri algerlega ljóst hvað okkur í Flokki fólksins þætti um fyrirhugaða sölu á þessum eignarhlutum í Íslandsbanka, nota bene á þessum tímapunkti, og það er alfarið nei. Þykir Flokki fólksins eðlilegt að ríkið haldi þessu eignarhaldi í bönkunum og þá til hve langs tíma? Já, það er alveg 100% eðlilegt í ljósi þess hvernig við fengum þetta eignarhald og hversu ofboðslega góðan arð það gefur okkur núna, sem hefur verið upp á tugi milljarða króna síðan við fengum bankana í hendur. Já, það er eðlilegt á meðan við sýnum fram á rosalega góðan rekstur, eins og þriðji ársfjórðungur í fyrra sýnir réttilega.

Flokkur fólksins vill ekki sjá það að fara í söluferli þegar allt gengur vel með bankana, á meðan við erum í blússandi heimsfaraldri. Sá hv. þingmaður sem hér stendur hefur bara ekki hugmynd um hversu langan tíma það tekur að reyna að koma á einhverju jafnvægi í þessum heimsfaraldri. Þannig að ég segi bara: Halló, halló, staldraðu við, eins og segir í textanum góða, bara hreint út sagt núna. Mér finnst þetta alger þeysireið, ljóshraði, að fara í þetta söluferli með allt of mikla hagsmuni.

Virðulegi forseti. Það er ekki fyrir það að mér leiðist að ljósið sé ekki farið að blikka, en ég er farin að halda að það sé bilað af því að ég er búin að segja svo mikið.