151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Spurt er: Hvers konar rekstur? Við tökum jafnóðum í fangið það sem á fjöruna flýtur, í þessu tilviki banka. Ég gleymdi að segja það við hv. þingmann áðan í fyrra andsvari, að Flokkur fólksins hefur aldrei talað um að ríkið ætti að reka tvo banka af þremur. Við erum að tala um að þetta sé röng tímasetning. Þegar hv. þingmaður segir að þetta detti ekki af himnum ofan og þetta sé í stjórnarsáttmála, ég býst við að hv. þingmaður sé að vísa í hvítbókina, þá var það nú einhvern veginn þannig að við gerðum öll ráð fyrir því að farið yrði í söluferli með banka. Ég held við höfum öll verið algerlega skýr með það að þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn þá hljóti hann að vilja selja bankana og það er náttúrlega ein af forsendunum fyrir þessu stjórnarsamstarfi. En í millitíðinni gerðist svolítið einkennilegt, hér kom upp kórónuveirufaraldur, út um allan heim, ekki bara hér. Það stuðaði rosalega allt efnahagskerfið. Þess vegna segi ég: Er þetta rétti tíminn? Við tókum úr sambandi lög um opinber fjármál til að reyna að hagræða löggjöfinni svo við, ríkisstjórnin og við öll, gætum mögulega hjálpað fyrirtækjum í vanda í þessum faraldri og efnahagskreppu. Við tókum lög um opinber fjármál hreinlega úr sambandi. Við verðum að átta okkur á því að ekki er endalaust hægt að tala um hvað var þegar verið var að skrifa stjórnarsáttmála og annað slíkt árið 2017. Nú er árið 2021 og við erum búin að vera hér í tæpt ár að glíma við heimsfaraldur. Mér finnst kominn tími til að hv. þingmenn, jafnvel þó að þeir vilji einkavæða alla skapaða hluti, átti sig á því.