151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekkert hámark? Nei, það er ekki hámark að því leyti að það liggur ekki fyrir. En ég get upplýst hv. þingmann um að í drögum að umsögn sem við í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar höfum unnið, og ég hygg að hv. þingmaður fái í hendurnar innan skamms, a.m.k. fyrir miðnætti ef guð lofar, er því beint til hæstv. fjármálaráðherra að huga að nokkrum atriðum. Eitt af því er að sett verði hámark á hlut hvers tilboðsgjafa, og er nefnt 2,5–3% af heildarhlutafé bankans. Það er hins vegar töluvert stór hluti af 25% útboði. Eins er bent á að það sé rétt og skynsamlegt að sett verði lágmark og hámark á þann hlut sem ríkið býður til kaups í fyrsta skrefi, lágmark 25%, hámark 35%.

Eins og ég nefndi áðan, herra forseti, er líka bent á að skynsamlegt sé að huga að því að tryggja að litlir fjárfestar, t.d. þeir sem skrá sig fyrir hlut fyrir milljón eða minna, þurfi ekki að sæta skerðingu ef umframeftirspurn verður í útboðinu, heldur verði skerðingin eingöngu til þeirra sem stærri eru. Ég og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson erum samstiga í þessu máli eins og velflestum öðrum.