151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru aldeilis tíðindi. Hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, skúbbar hér sannindum til þeirrar sem hér stendur sem er einnig í nefndinni og hefur ekki fengið tækifæri til að fara yfir þessa hluti. En gott og vel, svona vinnur meiri hlutinn á Alþingi Íslendinga.

Ég vil þá spyrja hv. þingmann: Setjum svo að hæstv. ráðherra fari bara ekkert eftir þessu. Nýtur hann þá ekki lengur stuðnings þingmannanna, a.m.k. þeirra tveggja sem hér hafa verið nefndir? Eða er þetta bara góðfúslegt, eitthvað til að láta hlutina líta aðeins betur út, til að róa aðeins mannskapinn? Vegna þess að það er einmitt þannig að fólki finnst þetta vera skrýtinn tími til að selja banka, þegar svona mikil óvissa er í efnahag landsins og í þessari djúpu kreppu. Það er tortryggni í gangi og það er mikilvægt að slá á þá tortryggni. Það má vera að meiri hlutinn sé einmitt að gera það með þessari nálgun sinni sem ég hef ekki séð, kannski er búið að senda mér hana, ég veit það ekki. Ekki er ég í aðstöðu til að segja að ég hafi krufið þetta til mergjar. Það eina sem ég hafði með í þessa umræðu eru þau gögn sem lágu fyrir nefndinni fyrir umræðuna. Er það sem sagt þannig að ef hæstv. ráðherra fer ekki eftir tilmælum meiri hlutans um hlutföll þá muni hann ekki njóta stuðnings lengur, alla vega ekki til að fara með hluti bankanna?