151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að gera alla hluti tortryggilega ef menn ætla sér það. Ef það er ásetningur hv. þingmanns að gera þessa sölu tortryggilega eða þau vinnubrögð sem við höfum haft í efnahags- og viðskiptanefnd er í rauninni fátt um svör. Ég taldi að það lægi fyrir að við værum sammála um að ekki myndi nást niðurstaða allra nefndarmanna þannig að allir stæðu að sameiginlegri umsögn, heldur yrði henni skipt upp. Ég hygg að hv. þingmaður ætli sér að skila sjálfstæðri umsögn, sem verður þó hluti af öllum þeim pakka. Það sem ég er að upplýsa hér er einfaldlega það sem meiri hlutinn hefur verið að fara yfir. Þetta er í drögum og verður sent nefndarmönnum, ef það er ekki búið, síðar í kvöld. Ekki reyna að gera hlutina tortryggilegri en þeir eru. Við erum þó að sýna ykkur á spilin. Og í fyrramálið, klukkan níu eða tíu, kemur nefndin saman og ræðir þetta.

Við erum að beina því til hæstv. fjármálaráðherra, en þó fyrst og fremst Bankasýslunnar, vegna þess að það er hún sem fer með framkvæmd þessa útboðs, að hugað verði að þessum atriðum og það verði þá a.m.k. tekin ákvörðun um að setja ekki hámark á hlutdeild einstakra tilboðsgjafa í verðandi útboði. Það verða þá að vera rök fyrir því að gera það ekki. Það eru rök fyrir því. Það kann að leiða til þess að verðið verði lægra. Ég hygg hins vegar að það sé skynsamlegt og í anda þess að reyna að tryggja dreifða eignaraðild, (Forseti hringir.) ekki síst til lengri tíma, að þetta sé gert með þeim hætti (Forseti hringir.) og vonandi geta aðrir nefndarmenn tekið undir með meiri hlutanum í þeim efnum.