151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Á ríkið að selja banka eða hlut í banka eða á ríkið að eiga banka? Hvert er hlutverk ríkisins? Það ætti væntanlega að koma fáum á óvart að persónulega tel ég það ekki vera hlutverk ríkisins að reka banka. Ég ætla þó að segja að ég er ekki algerlega andsnúin því að ríkið eigi einhvern hlut í banka. (Gripið fram í: Nú?) Mér finnst það ekkert rosalega góð hugmynd. Staðan er engu að síður sú að við eigum tvo af þremur viðskiptabönkunum. Það finnst mér óásættanlegt og óæskilegt til langrar framtíðar. Ég er nefnilega þannig þenkjandi að mér finnst hlutverk ríkisins eiga að vera að huga að öryggi landsmanna, tryggja að hér séu nægir innviðir til að fólk komist á milli staða, geti stundað fjarskipti, notið þjónustuveitna og annað. Ég tel að hlutverk ríkisins eigi að felast í því að vera með öflugasta og besta heilbrigðiskerfi í heimi, öflugt og gott menntakerfi og félagsþjónustu og tryggja öryggisnet fyrir okkur öll. Að því sögðu tel ég að ríkinu beri líka rík skylda til að hafa mikilvægan ramma utan um starfsemi eins og banka.

En hver er forsaga þessa máls? Sumir hafa viljað láta það hljóma eins og þetta hafi einhvern veginn dottið af himnum ofan og allt sé í svo miklum flýti. Þeir vilja búa til eitthvað svo mikið vantraust í kringum það eins og öllum hér hafi komið algjörlega á óvart að kannski væri skynsamlegt að leggja til að ríkið losaði um fjármagn í bönkum. Vil ég þá minna á hvítbókina, það góða rit sem við höfum fjallað um hér í þingsal og í nefndum þingsins. Hún fékk líka verulega umræðu úti í samfélaginu, hefði kannski mátt fá enn meiri umræðu. Svo fáum við ítarlega greinargerð með þessari tillögu núna. Það er margoft búið að veita heimildir í fjárlögum til að selja bankann.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að lesa upp það augljósasta vegna þess að mér finnst eins og það hafi aðeins týnst hér í umræðunni en það eru helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum þess í Íslandsbanka. Þau eru tiltekin mjög ítarlega í greinargerðinni frá fjármálaráðherra. Þessi markmið eru að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta og ekki síst að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra verkefna.

Ég á bágt með að skilja að einhver sé ekki sammála þessum markmiðum en ég get skilið að fólk hafi mismunandi sjónarmið og skoðanir á þeim leiðum til að ná fram þessum markmiðum. Þá er hægt velta fyrir sér: Eru efnahagsaðstæðurnar núna með þeim hætti? Það er farið ágætlega yfir það og margt mælir með því að efnahagsaðstæðurnar séu einfaldlega þannig að það sé góð hugmynd að selja banka. Auðvitað er óvissa, auðvitað vitum við ekki nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér. Þar af leiðandi kann einmitt að vera skynsamlegt að horfa til þess að losa um hluta af eignarhaldinu á Íslandsbanka, einhvers staðar í kringum 25% eins og lagt er til hér, ekki 100%. Ekki er verið að tala um að selja bankann allan þótt ég hefði jafnvel verið tilbúin til að taka þá umræðu. Ég fellst á þau rök að það kunni að vera skynsamlegt að losa um þennan hlut með þeirri gegnsæju aðferð sem lögð er til hér, með því að skrá þennan hlut á markað og sjá hverjir vilja kaupa og hvað fólk er tilbúið að borga fyrir þennan hlut. Það getur svo verið góður lærdómur af sölu þessa 25% hlutar, eða eitthvað í kringum það, sem við nýtum okkur í áframhaldandi vinnu við að losa um eignarhald ríkisins á bankanum.

Mikil umræða hefur farið fram hér í dag, og í raun úti í samfélaginu, um sölu bankans. Þá kemur að lagaumhverfinu en það verður nú að segjast eins og er, virðulegur forseti, að sumir tala bara eins og hér sé árið 2010, eða eitthvað þess háttar, áður en við slógum örugglega Íslandsmet, og þótt víðar væri leitað, í fjölda frumvarpa og lagabreytinga sem allar lutu að því að tryggja umhverfi fjármálastarfsemi. Gríðarlegur fjöldi lagafrumvarpa hefur farið hér í gegn og þingið hefur á síðustu árum og misserum fjallað um þessar auknu kröfur. Það eru auknar kröfur um eigið fé, laust fé, stöðugri fjármögnun og takmörkun á lánveitingum. Takmarkanir á fjárfestingarstarfsemi viðskiptabanka er frumvarp sem við afgreiðum fljótlega, sérstaklega er fjallað um stjórnarhætti, mat á hæfi eigenda, áhættustýringar, reglur um kaupauka, það eru sérstök lög um viðbrögð við rekstrarerfiðleikum banka, vernd innstæðueigenda og svo mætti lengi telja. Þess vegna finnst mér málefnalegra að þeir sem kunna að hafa eitthvað að athuga við það umhverfi sem við búum fjármálafyrirtækjum í dag komi þá bara með tillögur um hvað eigi að gera öðruvísi en líti ekki fram hjá þeim gríðarlegu breytingum sem hafa átt sér stað í laga- og eftirlitsumhverfi.

Ég ætla bara að standa hér og lofa því að hrun bankanna eins og við horfðum upp á árin 2008 og 2009 muni ekki endurtaka sig. Það mun ekki endurtaka sig. Ég ætla ekki að lofa því að banki fari aldrei aftur á hausinn því að í bankarekstri er nefnilega ákveðin áhætta eins og í flestum öðrum rekstri. En ég er alveg viss um að það sem gerðist þá gerist ekki aftur því að við erum búin að girða fyrir það. Þess vegna óttast ég stundum að við séum of föst í fortíðinni og horfum ekki nógu mikið til framtíðar. Að sjálfsögðu eigum við að læra af fortíðinni og þeim mistökum sem þar kunna að hafa verið gerð og byggja utan um það. En við verðum að horfa til framtíðar. Ég hef í rauninni miklu meiri áhyggjur af því að eitthvað kunni að gerast í framtíðinni, eitthvað sem við höfum ekki komið auga á og vantar þá að setja inn í umhverfi okkar og lagaumgjörð, heldur en nákvæmlega það sem gerðist í fortíðinni.

Þar af leiðandi hefur umræðan snúist mikið um það hvernig bankakerfi framtíðarinnar verður. Ég heyrði einn hv. þingmann kasta því fram að við gætum engan veginn selt hlut okkar í Íslandsbanka vegna þess að við sjáum ekki enn þá hvernig bankakerfi framtíðarinnar verður. Ég er ekkert viss um að það sé hlutverk okkar hér inni að ákveða hvernig framtíð bankakerfis á Íslandi verður. Við eigum jú að setja ramma utan um það. Við eigum að ákveða við hvaða umhverfi það býr. Við eigum að tryggja hagsmuni innstæðueigenda. Við eigum auðvitað að sjá til þess að bankakerfi, ég er ekki einu sinni viss um að það orð verði notað í framtíðinni, þjóni þeim tilgangi sem til þarf. Ég held að við getum ekki ákveðið nákvæmlega hvernig það verður. Ég held nefnilega að framtíð fjármálastarfsemi sé mjög breytt. Við sjáum bara hvað breytist með þessu tæki hér, símanum. Við getum stundað nánast öll okkar bankaviðskipti í gegnum síma, en ekki bara bankaviðskipti heldur er fjöldi annarra fyrirtækja farinn að bjóða þjónustu sem áður var bara innan bankanna. Það er ekki síst þess vegna sem ég held að það sé enn meiri áhætta en oft áður af eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum. Þetta er síbreytilegur heimur og ég tel að við munum sjá umtalsverðar breytingar á starfsemi þess sem við þekkjum í dag sem banka en verður kannski eitthvað allt annað.

Þess vegna segi ég: Ég held að nú sé skynsamlegt að taka það hóflega skref sem felst í því að skrá bankann á hlutabréfamarkað og losa þannig um ákveðið fjármagn eða fjármuni ríkisins sem betur eru nýttir til að draga úr skuldsetningu ríkissjóðs svo að hann geti haldið áfram að stunda öfluga uppbyggingu innviða. Ég held að hér sé um hóflega tillögu að ræða. Hér er gegnsæi tryggt, við erum búin að tryggja lagarammann. Notum tækifærið núna þegar margt bendir til að það sé góður tími til að selja og seljum hlut, bara hlut. Sjáum hvert það leiðir okkur til framtíðar.