151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Grundvallarspurningin sem ég hef í fjárlaganefnd er: Er verið að fara vel með almannafé? Ég held að það sé grundvallarspurningin sem við ættum öll að spyrja okkur varðandi skattheimtu og þær eignir sem við förum með fyrir hönd þjóðarinnar. Það er útgangspunktur minn og Pírata í þessari umræðu. Við erum eini flokkurinn sem ekki er hægt að giska á hvort vilji selja hlutabréf Íslandsbanka eða ekki, ef maður myndi ganga á línuna, heiðarlega sagt. Þegar ég skoða þetta mál reyni ég að sjá að hvaða leyti þessi leið er besta nýtingin á almannafé. Ég sé kostnaðinn við það að hafa 400 milljarða bundna í fjármálafyrirtækjum. Ég sé líka arðinn sem kemur úr þeirri fjárfestingu. Það verð ég að bera saman við það sem gera á við fjármagnið sem kemur við sölu á bankanum. Þá fer arðsemin út á móti. Og hvað kemur í staðinn? Í drögum að áliti í fjárlaganefnd er talað um að það eigi annaðhvort að fara í það að minnka þörf á skuldsetningu og þar af leiðandi verði vaxtabyrði lægri. Flott. Má ég sjá muninn þar á? Hvernig lítur það reikningsdæmi út? Eða að stofna á til einhvers konar arðbærari samfélagsverkefna. Allt í lagi. Hvernig líta þau út? Við erum með lög um opinber fjármál sem fjalla um að það eigi að vera valkostagreining og ábatagreining um þau verkefni, sem hefur aldrei verið gert þannig að við munum ekki sjá það. Eina raunhæfa dæmið er að bera saman það sem við fáum í sparnað varðandi vaxtakostnað og arðinn af þeirri fjárfestingu sem við erum þegar með. Þau gögn liggja einfaldlega ekki á borðinu fyrir framan okkur. (Forseti hringir.) Þá spyr ég: Af hverju erum við yfir höfuð að tala um þetta áður en við fáum þau gögn?