151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Að einkavæða banka korteri fyrir kosningar er stórmál. Að einkavæða banka í dýpstu kreppu í 100 ár er vont mál. Þessi hraði og þessi tímasetning munu hafa tvennt í för með sér; verra verð og verri kaupendur. Í fyrsta lagi vil ég draga fram tímasetninguna. Hún skiptir máli. Að sjálfsögðu skiptir máli hvenær ráðist er í einkavæðingu á banka. Það skiptir máli hvenær viðkomandi ákveður að selja eign. Eins og staðan er í dag er Ísland að upplifa sína dýpstu kreppu í 100 ár. Ekki bara Ísland, það er kreppa um allan heim. Ekkert ríki er að selja banka á þessum tíma. Það segir sína sögu að einungis ríkisstjórnin hér uppi á Íslandi ákveður að fara í þá vegferð á þessum tímapunkti. Hér er sagt að staða okkar sé svo sérstök en þá vil ég draga það fram að fjölmörg ríki eiga hlutdeild í bönkum. Ég ætla að nefna nokkur dæmi: Belgíska ríkið á 100% í einum banka og 8% í öðrum, í Bretlandi er eignarhlutur ríkisins í banka sem hét áður Royal Bank of Scotland um 62%, í Finnlandi reka fjölmörg sveitarfélög banka, í Grikklandi er eignarhald ríkisins allt frá 10% upp í 40% eftir því hvaða banka við lítum á og þeir eiga 40% í National Bank of Greece, í Hollandi er eignarhluti ríkisins í De Volksbank 100% og 56% í öðrum banka, eignarhlutur írska ríkisins er 70% í einum banka, 75% í öðrum og 14% í Bank of Ireland, eignarhlutur norska ríkisins í stærsta banka Noregs er 34%, á Spáni er eignarhlutur ríkisins um 62% í banka þar og í Þýskalandi á ríkið um 16% í Commerzbank og því til viðbótar eiga sambandsríkin þar hluti í Landesbank viðkomandi ríkis.

Ég nefni þetta sem dæmi því að heyrst hefur í umræðunni að við verðum að selja vegna þess að við eigum svo mikið í bönkunum. Við verðum ekkert að selja núna. Það er umræða sem við getum vel tekið síðar. Það getur vel verið að við eigum ekki að eiga Íslandsbanka til lengri tíma en hvernig stendur á því að við erum að upplifa þennan hraða á síðustu metrum kjörtímabilsins? Það er tortryggilegt og vekur upp spurningar. Það er svo augljóst, ef við tölum bara mannamál, að það á að a.m.k. að reyna að hefja einkavæðingu Íslandsbanka áður en þessi ríkisstjórn er kosin frá völdum, sama hvað það kostar. Það er svo augljóst sömuleiðis í mínum huga að það vantar miklu meiri umræðu, dýpri samfélagsumræðu, um þessa sölu. Eins og staðan er í dag finn ég ekki þrýsting úti í samfélaginu á að við eigum að selja banka, á að við eigum að endurvekja einkavæðingarferlið. Samkvæmt einni könnun eru um 60% þjóðarinnar andvíg sölu. Mér finnst það svo augljóst að á þessum tímapunkti eru markaðslegar aðstæður ekki hagfelldar. Ríkið fær ekki fullt verð fyrir sölu á þessum tíma. Þess vegna skiptir tíminn máli.

Það eru líka fáir kaupendur í boði. Það er líka kreppa hjá kaupendum. Það kemur fram í gögnunum að engir erlendir kaupendur séu í boði. Hverjir hafa þá áhuga og tök á því að kaupa banka í dag? Við skulum spyrja þeirra spurninga. Það skiptir máli hverjir eiga banka. Bankar eru kerfislega mikilvæg fyrirtæki. Það er ekkert svo langt síðan að íslensku bankarnir voru í eigu aðila sem voru ekki heppilegir eigendur að bönkum. Þetta voru þrjár blokkir. Hver viðskiptablokk á Íslandi átti einn banka og í ofanálag var eigendablokk hvers banka í mörgum tilfellum stærsti lánveitandinn hjá bankanum. Ég veit að regluverkið hefur batnað síðan bankahrunið var. Þetta skiptir engu að síður máli. Sporin hræða. Við skulum muna að síðast tók það einkarekið bankakerfi einungis fimm ár að keyra hér allt í þrot. Það tók einungis fimm ár frá því að við einkavæddum bankana síðast þar til allt fór í þrot. Ég ætla að rifja upp að ef við hefðum lagt gjaldþrot þessara þriggja íslensku banka saman er það fjórða stærsta gjaldþrot í sögu mannkyns. Ég er ekki að nota einhverja höfðatölu, ég er að undirstrika hvað bankahrunið 2008 var stórt á heimsmælikvarða. Það væri ígildi fjórða stærsta gjaldþrots sögunnar. Við skulum því fara varlega. Ég er ekki að segja að aðstæðurnar séu eins, að sjálfsögðu ekki. Margt hefur breyst til batnaðar. En af hverju liggur okkur svona á?

Það er óvissa um eignasafn bankans. Um 20% af eignasafni Íslandsbanka eru í greiðslustöðvun. Heyrst hefur að það séu allt að 180 milljarðar sem vill svo til að er jafn hátt og eigið fé bankans. Stóran hluta af eignasafni bankans má rekja til ferðaþjónustufyrirtækja sem eru að sjálfsögðu í miklum vandræðum í dag. Ferðaþjónustufyrirtækin reiða sig á skilning bankans og eigenda hans.

Herra forseti. Það er ekki skynsamlegt að selja bankann í svona nauð eins og menn hafa talað um að ríkissjóður sé í, að það liggi svo mikið á að fá pening í ríkiskassann til að greiða niður skuldir. Vextir eru lágir á Íslandi og úti í heimi. Það liggur ekki lífið á að borga niður lán ríkisins. Þá vil ég bæta við að það eru heilmikil verðmæti í þessu svokallaða umfram eigin fé bankans. Eigið fé er í raun skuld bankans við eigendur. Þessi tala er yfir 40 milljarðar. Hægt er að minnka það eigið fé eigi maður bankann án þess auðvitað að fara niður fyrir eða nálægt þeim kröfum sem við gerum til bankanna um að hafa ríflegt eigið fé. Ef ríkissjóður er í svo miklum vandræðum og ætlar að fá 20, 30 milljarða fyrir þessa eignasölu af hverju drögum við ekki þetta fé úr Íslandsbanka gegn lækkun eigin fjár og fáum sömu upphæð í ríkissjóð en höldum samt 100% eignarhaldi á bankanum? Þessi leið er a.m.k. ekki útrædd. Ég minni á að Íslandsbanki hefur greitt ríkissjóði 70 milljarða í arð á fimm árum. Það er jafnmikið og Landspítalinn kostar. Ég er ekkert að segja að við megum búast við jafn háum arðgreiðslum en við getum samt búist við arðgreiðslum. Við höfum þann möguleika að lækka eigið fé til að draga meira fé úr bankanum sé það hagstætt. Landsbankinn hefur greitt hluthöfum sínum, ríkinu, 132 milljarða á fimm árum. Samanlagt hafa þessir tveir viðskiptabankar, sem eru í eigu ríkisins, greitt yfir 200 milljarða kr. í ríkissjóð sem er hærri upphæð en allar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid fyrir árin 2020 og 2021.

Herra forseti. Sporin hræða, ekki síst með Sjálfstæðisflokkinn í forgrunni sölunnar. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í það. Ég vil líka draga fram að miklar breytingar eru fram undan í fjármálaumhverfinu og greiðslumiðlun er að verða almenn, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur bent á. Kannski getur verið miklu skynsamlegra að ríkið eigi einmitt bankana á meðan við erum að ganga í gegnum þetta breytingaskeið. Við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á að skilja á milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

Herra forseti. Það er svo margt rangt við þessa aðferðafræði. Það er svo margt rangt við þennan hraða og þessa tímasetningu. Ég hvet þjóðina til að fylgjast með því hvað hér er að gerast og ég hvet kollega mína hér í þessum sal til að staldra aðeins við og hugsa: Gæti ekki verið skynsamlegra að bíða aðeins, (Forseti hringir.) láta tímann vinna með sér og eyða óvissunni svo að hægt sé að fá hærra verð fyrir hlut ríkisins og fjölbreyttari hóp kaupenda?