151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þá greinargerð sem hún viðhafði. Mig langar að spyrja ofurlítið varðandi rökin sem hún gerði tilraun til að færa fyrir því að selja hluti út úr fjármálakerfi okkar samfélags á þessum tímamótum þegar, eins og fram hefur komið margoft, óvissutímar eru algerlega ríkjandi, óvissutímar sem við höfum ekki upplifað í 100 ár og við vitum hvaða breytingar í samfélaginu eru fram undan. Ég spyr hv. þingmann um það hvaða rök hún sjái hníga að því að selja þessari verðmætu eignir út úr búi samfélagsins á þessum tíma. Við vitum alveg að eitthvað af röksemdafærslunni er að efla samkeppni á bankamarkaði. Það er hin yfirlýsta mantra sem við höfum heyrt hér í dag og menn hafa farið mikinn, einkum í öðrum samstarfsflokkanna. Hvaða raunverulegu rök hníga að þessu, skynsemisrök? Nú vil ég ekki að menn hengja sig í einhverja hagfræðiskóla heldur hreina skynsemi. Hv. þm. Brynjar Níelsson nefndi hér með glott á vör í kvöld að talað væri um gullgæs og mjólkurkú. Vissulega eru þetta stofnanir sem hafa fært okkur tekjur og munu gera það áfram, hversu mikið vitum við ekki. Ef hv. þingmaður gæti ofurlítið dýpkað þennan þátt.