151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Alþekkt biðlistablæti ríkisstjórnarinnar tók á sig nýja mynd á dögunum þegar fréttir bárust af 2.000 leghálssýnum sem lágu ógreind í biðröð ofan í kjallara. Á bak við sýnin eru 2.000 konur sem bíða frétta af því hvort sýnin eru jákvæð eða neikvæð, hvort þar greindust frumubreytingar eða ekki, krabbamein eða ekki. Þetta eru 2.000 konur. Ástæðan fyrir þessum óvenjulega biðlista er sú sama og fyrir svo mörgum öðrum biðlistum ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks; vantraust í garð sjálfstætt starfandi sérfræðinga og frjálsra félagasamtaka innan heilbrigðiskerfis okkar. Lausnin við biðlistavandanum á líka að vera sú sama og notuð er þegar kemur að öðrum þekktum biðlistum. Við þekkjum dæmin af fólki sem er sent til útlanda á kostnað ríkisins til að gangast undir liðskiptaaðgerðir þar, með tilheyrandi óþægindum og kostnaði, frekar en að stjórnvöld nýti sér sérfræðikunnáttu og afkastagetu sjálfstætt starfandi sérfræðinga hér á landi. Leghálssýnin á að senda til útlanda og biðlistinn er til kominn af því að ekki er enn búið að semja við þennan einhvern í útlöndum sem á að taka við keflinu af íslenskri frumurannsóknarmiðstöð sem er og hefur verið til staðar. Eftir situr hámenntað og sérhæft starfsfólk án vinnu, sérfræðingar sem ekki fengu boð um vinnu frá ríkinu þegar þjónustan fór þangað um áramót. Ég heyrði í fréttum í gær haft eftir hæstv. fjármálaráðherra að hann hefði mestar áhyggjur af atvinnuleysi. Það hlýtur þá að vera eitthvert annað atvinnuleysi en það sem ríkisstjórnin býr hér til. Spennan eykst, herra forseti. Enn er hálft ár til kosninga og nægur tími til að flytja enn stærri sneið af heilbrigðisþjónustunni okkar til útlanda. Hvað ætli verði næst?