151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áróðurinn um óráðsíu í fjármálum borgarinnar er orðinn mjög þreyttur. Skuldahlutfall A-hluta Reykjavíkurborgar árið 2018 var 49% þegar meðaltal sveitarfélaga var 63%. Kópavogur var þá með 94%, Hafnarfjörður 112, Garðabær 59, Mosfellsbær 84 og Seltjarnarnes með 27. Í framhaldi af þessu er dregið upp úr hattinum að skuldir A- og B-hluta Reykjavíkur hafi hækkað um 21 milljarð á milli áranna 2018 og 2019 en á sama tíma hækkuðu skuldir ríkisins um 185 milljarða. Merkilegt. Næst kemur að Reykjavík hafi sent frá sér neyðarkall, auðvitað, eins og allir aðrir í landinu, út af heimsfaraldri. Ríkið er að skuldsetja sig um hundruð milljarða á næstu árum út af því. Ástandið kemur auðvitað hart niður á öllum sveitarfélögum. Í þennan ræðustól mæta svo meira að segja ráðherrar og þingmenn Reykjavíkur og kvarta undan slæmum rekstri borgarinnar þótt það sé nákvæmlega ekkert sem bendi til þess að borgin standi sig betur eða verr en önnur sveitarfélög í landinu. Betur að sumu leyti? Já. Verr að öðru leyti? Já. Eru til skýringar á því? Já. Reykjavík er t.d. með miklu þyngri þjónustubyrði en önnur sveitarfélög. Hvað varðar félagslegt húsnæði var fjöldi félagslegra íbúða í Reykjavík árið 2016 4,6%, en Kópavogur var með 3,4% Garðabær 0,7%, Hafnarfjörður 2,4% og Seltjarnarnes 0,9%.

Það er ekki hægt að einblína bara á skuldahlutföll og segja: Skamm, illa gert. Ef svo væri þá þyrfti að skamma fullt af öðrum sveitarfélögum líka en ekki taka eitt út fyrir sviga. Það verður alltaf að skoða heildarsamhengið og hafa sanngjarnan samanburð. Sumir segja að samanburðurinn sé ósanngjarn af því að Reykjavík setur félagsbústaði í B-hluta á meðan önnur eru með þá í A-hluta. En á sama tíma er Reykjavík með miklu hærra hlutfall félagslegra íbúða. En haldið endilega áfram með áróðursmöntruna. Ég held áfram að benda á bullið. Ég er ekki einu sinni að segja að rekstur Reykjavíkurborgar sé góður eða slæmur. Ég er bara að segja að sama gagnrýni verði að ganga yfir alla.