151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Hörmulegt slys sem varð í Skötufirði um helgina er í fersku minni og hugur okkar margra er hjá þeim sem eiga um sárt að binda og meðal íbúanna í litlu en nánu samfélagi á Flateyri. Inn í umræðuna hefur fléttast brestur á öruggum símasamskiptum á Vestfjörðum, í krefjandi umhverfi í djúpum fjörðum og háum fjöllum. Þótt byggð sé víða orðin gisin um þessar mundir er umferð akandi, hjólandi og jafnvel gangandi fólks umtalsverð, bæði sumar sem vetur, og mun fara vaxandi með auknum fjölda ferðamanna á þessu fróma svæði, auk vaxandi frístundabyggðar. Ástand vega í Djúpinu er víða orðið allgott og þróast hægfara í jákvæða átt. Enn eru þó brýn verkefni á norðanverðum Vestfjörðum sem bíða, ég tala nú ekki um suðurhluta svæðisins.

Í kvöldfréttum sjónvarps í gær var fjallað um stöðuna í GSM-fjarskiptum og þá vinnu sem lögð hefur verið í umbætur. Unnið hefur verið að þéttingu senda á undanförnum misserum og fram kom að ráðherra áformar enn frekari aðgerðir til bóta. Þeim þarf að flýta. Þetta eru atriði sem farendur um þjóðvegi landsins treysta á í ferðum sínum sem lykilatriði. Samkvæmt minni reynslu eru greinileg merki um að staðan hafi lagast. Enn eru þó auðir blettir eins og sannaðist átakanlega um síðustu helgi. Þeim verður að útrýma svo fljótt sem nokkur kostur er. Það sama á raunar við um útsendingar útvarps, sem enn ná ekki að hanga samfellt inni á leiðinni til Ísafjarðar. Þá eru ótalin fjarskipti á Hornströndum, m.a. í friðlandinu þar sem þúsundir fólks eru á hverju sumri á ferðum sínum. Þar verður líka að tryggja öryggi sjófarenda sem sigla tiltölulega skammt undan landi. Stjórnvöld eru því hvött, herra forseti, til að bregðast hratt við og setja undir þessa leka og tryggja farendum að þessu leyti greiða og örugga leið.