151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Átröskunarsjúkdómar eru stöðugt og vaxandi lýðheilsuvandamál víða í heiminum. Átraskanir eru algengar og greinast fyrst og fremst hjá ungum konum en karlmenn og öll kyn eru útsett fyrir þessari röskun sem og fólk á öllum aldri, alveg niður í barnunga einstaklinga. Á síðu Geðfræðslu segir:

„Ísland er ekki eftirbátur annarra vestrænna ríkja og sýndi íslensk skimunarrannsókn á átröskunum hjá framhaldsskólanemum að um 10% þátttakenda skimuðust með átröskun og 50% stúlkna og 20% drengja sögðust hafa áhyggjur af mataræði og þyngd.

Átröskunarsjúkdómar koma oftast fram á unglingsárum og snemma á fullorðinsárum. Ef þeir eru ekki meðhöndlaðir hafa þeir tilhneigingu til að verða langvinnir og þeim fylgja oft margvísleg líkamleg og geðræn vandamál og dánarlíkur aukast.“

Oft getur átröskunarsjúkdómur lýst sér á svipaðan hátt og fíknisjúkdómur og haft áhrif á öll svið í lífi fólks; samskipti, atvinnu, fjárhag og svo mætti lengi telja. Nýleg evrópsk fjölsetrarannsókn þar sem skoðuð voru tengsl fíknivanda og átröskunar sýndi fram á að algengi fíknisjúkdóma er hærra hjá átröskunarsjúklingum en hjá öðrum. Rannsóknir hafa einnig sýnt tengsl á milli brottfalls úr fíknimeðferð og átröskunar. Hafi sjúklingar bæði átröskun og fíknisjúkdóm virðist sem edrúmennska geri átröskunareinkenni verri og ýti þannig undir líkurnar á því að fólk snúi aftur í neyslu. Átraskanir eru misskilinn sjúkdómur. Nýlegar breskar rannsóknir sýna að tilhneiging til átröskunar meðal unglinga og barna hefur aukist gríðarlega núna í Covid.

Forseti. Mig langar að skora á hæstv. heilbrigðisráðherra í samvinnu við menntamálaráðherra og barnamálaráðherra að veita þessum málaflokki sérstaka athygli, skipa e.t.v. starfshóp utan um hann í samráði við það góða fagfólk sem við eigum hér á þessu landi og leggja kraft í vitundarvakningu um þetta brýna lýðheilsuvandamál.