151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Það er eins og ný markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hafi farið fram hjá fólki í landinu en þau hafa nú birst bæði hér í þessum sal og í fjölmiðlum. Ég vil líka taka undir jákvæð orð 1. þm. Suðurk. þegar hann sagðist ætla að þakka öllum sem hann mögulega kæmist yfir að þakka fyrir allt það góða sem þau hafa gert á síðasta ári. Ég tek undir það. Viðsnúningur í samfélaginu frá því á síðasta ári er meiri en nokkurn hefði getað órað fyrir eftir að tekjur ríkisins hrundu algerlega í kórónuveirufaraldrinum og þúsundir vinnandi fólks urðu atvinnulaus. Fyrirtæki eru löskuð og skólastarf á undir högg að sækja.

Virðulegur forseti. Með samstöðu og dugnaði hefur samt náðst ótrúlegur árangur. Þar hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið í forystu og lenging bótatímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Stuðningur á ýmsa vegu við fyrirtæki og heimili hefur komið sér afar vel í þessu ótrúlega ástandi. En nú er vonin komin. Bólusetning þjóðarinnar er sú von sem kemur okkur vonandi aftur af stað. Ég er sannfærður um að það verði skemmri tími en við höldum þangað til við sjáum þennan tíma í baksýnisspeglinum. Það er forgangsverkefni.

Vonandi gefa nýjar fréttir af loðnuleit okkur 25–30 milljarða loðnuvertíð. Það myndi breyta mjög miklu í sjávarbyggðum landsins, það myndi breyta miklu fyrir útgerðina og það myndi breyta gríðarlega miklu fyrir sjómenn og landverkafólk í sjávarútvegsplássunum allt í kringum landið.

Virðulegur forseti. Það er okkar allra að berjast (Forseti hringir.) gegn þeim kórónuveirufaraldri sem hér hefur verið og sýna samstöðu í því verki.