151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það vakti athygli að samgönguráðherrar átta ESB-landa, m.a. Austurríkis, Portúgals, Frakklands og Danmerkur, sendu frá sér yfirlýsingu sem fjallar um öfugþróun í flugrekstri í kjölfar veirunnar. Ráðherrarnir hvetja ESB-lönd og miðlæg yfirvöld þar til að láta til sín taka. Tilhneigingin snýst um félagsleg undirboð, leiguáhafnir og t.d. það að stunda flugþjónustu í tilteknu landi en nýta aðrar bækistöðvar en heimahöfn til rekstrarins. Þetta er ekki óþekkt en fer vaxandi og varðar lækkandi laun, ráðningarsamninga sem eru ekki til staðar, skattskil og mikilvægt eftirlit, bæði með tæknilega og mannlega þættinum, þ.e. það varðar einfaldlega flugöryggi. Íslensk flugfélög hafa almennt ekki tekið þátt í svona löguðu, samanber ef við tökum Icelandair eða WOW sem dæmi. En nú virðist annað félag brydda upp á slíku. Það liggur fyrir að hér hafa flugfélög rekið starfsemi sína þannig að það hefur lotið íslenskum lögum og kjarasamningum í áratugi og mikilvægt að engin breyting verði á því. Það stefnir í endurskoðun loftferðalaga og þau eru nú komin í samráðsgátt. Það stendur þá líka upp á okkur þingmenn að tryggja í lengstu lög að lagaumhverfi hér sé þannig að það standi vörð um flugöryggi, vinnustaðaöryggi og vinnuskilyrði öll þannig að kaup og kjör vinnandi fólks í landinu séu á þessu sviði í góðu lagi.