151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér styrki til einkarekinna fjölmiðla. Ég hjó eftir að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson talaði um næststærstu fjölmiðlana í Noregi. Hlutverk fjölmiðla er að miðla efni og við gætum hugsað okkur sem dæmi tvær bókabúðir í smábæ úti á landi. Ættum við að styrkja næststærstu bókabúðina til að hún gæti haldið áfram samkeppni við þá stærstu eða eigum við að hafa þetta eins og er í dag og leyfa bara markaðnum að ráða, sá sem stofnar búð tekur áhættu og ef hún gengur ekki upp þá bara hættir hann?

Nú er verið að tala um að styrkja einkarekna fjölmiðla. Við vitum af einkareknum fjölmiðlum í eigu auðmanna sem eru bara að kaupa þá til að ná völdum. Finnst honum í lagi að við færum að styrkja þá sem kaupa fjölmiðla til að koma sínum sjónarmiðum að og eiga nóg af peningum til að gera það og geta rekið þá með tapi og hafa gert það? Hver er skoðun hans á því og hvar eigum við að stoppa þegar við styrkjum sjálfstæðan rekstur?