151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég mæli ekki endilega með fyrirkomulaginu í Noregi þar sem næststærstu fjölmiðlarnir eru styrktir, ég vildi bara vekja athygli á því að Norðmenn velja einmitt ekki að styrkja þá stærstu. Það er gert til að hafa ákveðið aðhald gagnvart einokun á málfrelsismarkaðnum. Það er í rauninni ákveðið heilbrigði og væntanlega er það sniðið dálítið að norskum aðstæðum, kannski eru ekki mikið fleiri en tveir miðlar á hverju svæði þannig að það kemur svona út.

En varðandi auðmenn og fjölmiðla á Íslandi, já, hér hefur vissulega verið ákveðið styrkjaumhverfi útgerðar og þess háttar við ákveðna fjölmiðla. Hvernig það spilar saman við það hlutverk hins opinbera að hafa tjáningarfrelsisgrundvöll, vettvang til að iðka samfélagsumræðu, er alveg áhugavert jafnvægi sem þarf að halda. Talað er um það í skilyrðum að fjölmiðill megi ekki vera í fjárhagsörðugleikum. Ef einhver útgerð eða annar aðili þarf stöðugt að moka peningum inn í fjölmiðilinn þá má kannski fara að skilgreina það í áttina að því að vera í fjárhagsörðugleikum, hægt er að gera eitthvað svoleiðis. En á öðrum Norðurlöndum er þarna áhersla á smærri miðlana, á nýsköpunina, sem geta þá byggt sig upp og orðið að stærri og óháðum fjölmiðlum, óháð aðkomu fjársterkra aðila.