151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt áhuga á þeim vettvangi tjáningarfrelsis sem fjölmiðlar eru og áhuga á fjölmiðlum sem fjórða valdinu sem þeir eru gagnvart ríkisvaldinu. Þar verðum við að sjálfsögðu að huga að jafnræði á milli mismunandi miðla og hvernig þróunin á því er og tækniþróun. Það væri t.d. mjög góð hugmynd fyrir Ríkissjónvarpið, sem er núna kannski í vandamálum, og fleiri miðla að skoða nýjar leiðir við miðlun, t.d. í stjórnmálaumræðu. Með svona rosalega marga flokka verður kosningasjónvarp gríðarlega flókið og erfitt og hver og einn flokkur fær rosalega lítinn tíma til að tala við þjóðina út af takmörkunum í línulegri dagskrá. En við erum með aðra miðla. Við erum með hlaðvörp, sem eru í rauninni bara útvarpsþættir, en þeim er dreift á annan hátt. Við erum með myndefni á vef sem er dreift á annan hátt en í línulegri dagskrá og það er hægt að breyta dagskrá þessara miðla og þjónustuhlutverki í þágu tjáningarfrelsisvettvangsins rosalega mikið ef við þorum bara að spyrja þeirra spurninga og stíga þau skref í staðinn fyrir að moka ofan í þessa holu.

Varðandi mismikinn fjárstuðning þá er það tvímælalaust eitthvað sem væri áhugavert að skoða upp á ákveðin hagsmunatengsl og ráðandi stöðu á tjáningarfrelsisvettvangnum. Í mikilli ráðandi stöðu myndum við væntanlega meta það svo að viðkomandi fjölmiðill þyrfti ekki á stuðningi að halda til að sinna því hlutverki.