151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:21]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Við erum hér að fjalla um mál sem lýtur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Ég ætla að haga máli mínu þannig að fjalla fyrst og fremst um stuðning við einkarekna fjölmiðla því að allt of oft leiðist slík umræðu út í akkúrat umræður um Ríkisútvarpið, allt frá tilvist þess yfir í það hvort þar eigi að vera áfengisauglýsingar eða almennar auglýsingar o.s.frv. Ég horfi á þá stöðu þannig, og ætla þar með að ljúka máli mínu varðandi Ríkisútvarpið, að öll Norðurlöndin styðja einkarekna fjölmiðla, algerlega óháð því hvort auglýsingar eru á ríkisfjölmiðlinum eða ekki. Með öðrum orðum, öll þau lönd sem við berum okkur saman við líta á það sem eðlilegan hlut að styðja rekstur einkarekinna fjölmiðla.

Ég studdi frumvarp um stuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla þegar það kom fram í fyrra, talaði mikið fyrir því og hefði gjarnan viljað að það hefði verið samþykkt því að ég veit að rekstur einkarekinna fjölmiðla er erfiður. Ég veit líka að rekstur einkarekinna fjölmiðla er mikilvægur og enn fremur að rekstur þeirra, hafi hann verið erfiður fyrir veirufaraldurinn, er umtalsvert erfiðari á eftir. Þannig að það er brýnt að löggjafinn einhendi sér í það verkefni að samþykkja þetta frumvarp, setja það í sína eðlilegu þingmeðferð, gera á því breytingar ef fólk telur það nauðsynlegt, en koma því í gegn. Sjálfur myndi ég óska þess að stuðningurinn yrði afturvirkur, þ.e. það yrði stuðningur frá og með síðustu áramótum. Kannski kemur það út á eitt þegar upphæðin er ein til skiptanna.

Ég geng ekki gruflandi að því að þetta er ekki fullkomnasta frumvarp af öllum frumvörpum um hvernig eigi að styðja einkarekna fjölmiðla. Ég held að það sé mjög erfitt að finna leið sem allir sætta sig við varðandi það að styðja einkarekna fjölmiðla, fyrir utan það að ekki eru öll sammála því að það eigi yfir höfuð að gera. En ég horfi á stöðuna þannig. Það er lífsnauðsynlegt fyrir rekstur fjölmargra einkarekinna fjölmiðla að fá stuðning, annars munu þeir leggja upp laupana. Eitthvað þarf að gera og það þarf að gera sem fyrst.

Nú vill svo heppilega til að við höfum reynslu af því að hafa samþykkt sérstakan stuðning vegna kórónuveirunnar og úthlutað eftir reglugerð. Sú reynsla er bara fín, ef horft er á málið út frá því að við viljum að fólk sem vinnur við fjölmiðla haldi áfram að vinna við fjölmiðla og fjölmiðlarnir lifi.

Ég varð fyrir vonbrigðum með umræðuna. Það kom mér kannski ekkert allt of mikið á óvart en ég vonaði á þeim tíma að við gætum haft okkur upp fyrir það nákvæmlega hverjir væru að fá stuðninginn. Það var því miður ekki þannig, samanber bæði hjá stjórnmálafólki og einstaka blaðamönnum. Ég segi fyrir mína parta að ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því hvort þeir fjölmiðlar eða fjölmiðlamenn sem vinna hjá einstökum fjölmiðlum eru mér þóknanlegir eða ekki. Það kemur mér ekki við. Út á það gengur lýðræðisleg umræða að margt sem kemur fram í þeim fjölmiðlum, sem munu njóta styrksins, mun alls ekki verða mér að skapi. Ég mun verða ósammála mörgu og ég mun áfram tauta við sjálfan mig við morgunverðarborðið um að þetta séu nú ekki góð vinnubrögð, eins og allir þeir sem hafa unnið á fjölmiðlum gera eftir að þeir hætta. Við höldum öll að þetta hafi alltaf verið miklu betra þegar við vorum á dögum. En ég ætla að berjast fyrir því að fjölmiðlarnir fái styrkinn. Það er lykilatriðið, forseti.

Við þurfum að finna leiðina þar sem verður sem minnst um huglægt mat. Það hefur tekist að þróa þetta mál til betri vegar hvað það varðar. Það þarf ekki eins mikið að setjast yfir það og velta fyrir sér: Er þetta ritstjórnarefni eða ekki? Eða í staðbundnum fjölmiðlum: Er þetta efni af svæðinu eða ekki o.s.frv.? Það er erfitt samt að losna við allt huglægt mat í þessu af því að sjálfur grunnurinn, sjálft andlagið hér, er alltaf að einhverju leyti huglægt mat. Hvað er fjölmiðill? Það er erfið spurning að svara og síkvik. Ég öfunda ekki það fólk sem hefur þurft að búa til kerfið utan um þetta fyrirbæri, hvernig við getum stutt við fjölmiðla til að stuðla að sem fjölbreyttastri, lýðræðislegri umræðu. Það hefur tekist vel til hér að mínu viti. Það eru hlutir sem má þróa og bæta og ég er alveg viss um að eftir því sem fram vindur og stuðningur er greiddur út reglulega og við sjáum hvernig þetta fer allt, mun umhverfið þróast. Við erum að stíga fyrstu skrefin. En við verðum stíga fyrstu skrefin annars verður ekki mikið um einkarekna fjölmiðla til að styðja. Þess vegna lýsi ég yfir sérstakri ánægju minni með það, forseti, að mál þetta sé komið fram og hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til dáða.