151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr af hverju verið sé að styrkja einkarekna fjölmiðla og hvort ég hafi ekki áhyggjur af eignarhaldinu. Við höfum sett skýr ákvæði um að gagnsæi þurfi að ríkja um eignarhaldið, hvort fjölmiðillinn sé á vanskilaskrá og annað slíkt. Í þriðja lagi vil ég líka upplýsa hv. þingmann um að við skoðuðum allt fjölmiðlalandslagið á Norðurlöndum og það liggur í þessu mikil vinna, ekki bara frá því að ég varð mennta- og menningarmálaráðherra heldur hafa aðrir ráðherrar farið mjög gaumgæfilega yfir málið. Skipuð var nefnd sem skilaði skýrslu til mín í janúar 2018, nefnd sem fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði skipað, og við fórum yfir það lið fyrir lið hvað við gætum mögulega gert. Þetta er ein niðurstaðan.

Ég ætla hins vegar líka að nefna, virðulegi forseti, að ef við skoðum það sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndunum þá er það fyrirkomulag sem við leggjum hér til mjög svipað því sem Danir hafa tekið upp og þeir leggja ríka áherslu á að fjölmiðlar séu að sjálfsögðu sjálfstæðir. Ég verð að segja að það hefur aldrei hvarflað að mér á nokkrum tímapunkti að þessi stuðningur hefði áhrif það hvernig fjölmiðlar fjalla um stjórnmál, hvernig þeir fara yfir þau málefni. Hver og einn einstaklingur er sjálfstæður og hann skuldar sjálfum sér það að setja fram sanngjarna og opna umfjöllun um það málefni sem hann fjallar um hverju sinni.