151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

366. mál
[17:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og varðar upplýsingarétt almennings. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samráði við forsætisráðuneytið. Með frumvarpinu er brugðist við athugasemd umboðsmanns Alþingis í kjölfar kvörtunar sem barst embættinu vegna staðfestingar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um að synja kvartanda um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra sem sóttu um starf útvarpsstjóra í upphafi árs.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 18. gr. laga um Ríkisútvarpið. Lagt er til að ákvæðið feli í sér að um starfsemi Ríkisútvarpsins gildi ákvæði upplýsingalaga um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn, föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda, launakjör æðstu stjórnenda, áherslur og kröfur um árangur í starfi æðstu stjórnenda sem fram koma í ráðningarsamningi eða öðrum gögnum og upplýsingar um menntun þeirra. Einnig skal veita umbeðnar upplýsingar um viðurlög í starfi æðstu stjórnenda, þar á meðal vegna áminningar og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir.

Breytingin færir lagaumhverfi Ríkisútvarpsins er varðar upplýsingarétt almennings til samræmis við vilja löggjafans. Ekki stóð til að breyta gildissviði upplýsingalaga með frumvarpi sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi að því er snýr að Ríkisútvarpinu þegar ný lög um Ríkisútvarpið og ný upplýsingalög tóku gildi heldur áttu ákvæði upplýsingalaga áfram að gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins. Með frumvarpinu er þeirri óvissu því eytt sem umboðsmaður Alþingis hefur rakið. Lagabreytingin er liður í því að tryggja gagnsæi í allri starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Slíkt gagnsæi er mikilvægt fyrir eigendur félagsins sem er almenningur í landinu.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.