151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

reglubundin og viðvarandi upplýsingaskylda útgefenda verðbréfa og flöggunarskylda.

341. mál
[17:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og benda á þær framfarir sem fylgja samráðsgáttinni sem hv. þingmaður kom inn á. Það er til bóta fyrir þingið að sjá í þinglegri meðferð í frumvarpinu þau samskipti sem eiga sér stað á undirbúningsstigi. Það gleymist stundum að ekki er langt síðan við tókum það skref að vinna málin betur með þessum hætti. Í samráðskaflanum kemur þetta fram. Ég ætla samt sem áður ekki að fullyrða að það hafi í einu og öllu verið tekið tillit til allra athugasemda sem hv. þingmaður vísaði til í máli sínu. Í samráðskaflanum er þó fjallað um umsagnir frá Logos lögmannsþjónustu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins o.s.frv. Þar var einkum um að ræða athugasemdir við þann frest sem flöggunarskyldur aðili hafði til að senda tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins.

Í frumvarpinu, eins og það lá fyrir í samráðsgáttinni, var gert ráð fyrir að tilkynningin yrði send án tafar og eigi síðar en næsta viðskiptadag. Þessu var breytt eftir að athugasemdir voru gerðar. Svo er hægt að rekja sig áfram í samráðskaflanum um aðrar breytingar sem gerðar voru, t.d. var orðunum „og flöggunarskyldu“ bætt við í fyrirsögn frumvarpsins. Ég get sem sagt staðfest að málið hefur tekið breytingum og ég vona að það komi til móts við þau atriði sem hv. þingmaður tiltekur.