151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

tekjuskattur.

399. mál
[17:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Frá því að heimsfaraldur kórónuveiru reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingu með auknum útgjöldum til opinberra framkvæmda en skortur hefur verið á fjárfestingu af hálfu atvinnulífsins. Fyrirhugaðar aðgerðir miða að því að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum með sérstaka áherslu á eignir sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Frumvarpið er þannig liður stjórnvalda í öflugri viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins og leggur grunn að sterkara Íslandi til framtíðar.

Í frumvarpinu er mælt fyrir tvenns konar frávik frá gildandi lögum sem taka til fjárfestinga í atvinnurekstrareignum í formi lausafjár. Annars vegar er um að ræða almenna heimild til þess að fyrna slíkar eignir sem aflað er á árinu 2021 hraðar en gildandi lög segja til um, þ.e. svokölluð flýtifyrning. Sú aðgerð getur leitt til lægri skattgreiðslna fyrstu árin eftir kaup en á móti kæmi hærri skattgreiðsla á síðari árum þegar búið væri að fyrna stofnverðið að niðurlagsverði, sem er í dag 10% af stofnverði eignar. Í dag er hámarksfyrning lausafjár á bilinu 20–35% og mælir frumvarpið fyrir um að hækka þessi efri mörk í 50% fram til loka árs 2025.

Hins vegar er um að ræða heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af stofnverði eða kaupverði ákveðinna atvinnurekstrareigna sem aflað er á árunum 2021–2022, sem heimilt yrði að fyrna með jöfnum fjárhæðum á þremur árum. Skilgreining þeirra eigna sem falla undir heimildina eru eignir sem teljast umhverfisvænar, stuðla að sjálfbærri þróun og falla undir einn af þeim fjórum flokkum sem taldir eru upp í frumvarpinu. Flokkunum er ætlað að endurspegla eignir sem kalla mætti grænar með hliðsjón af alþjóðlegum reglum og viðmiðunum eins og nánar yrði kveðið á um í reglugerð ráðherra. Þá er heimildin einnig látin ná til eigna sem falla ekki undir þessa tilteknu flokka en telja má sambærilegar grænum eignum og stuðla að sömu markmiðum. Samandregið má þannig segja að sérstakt fyrningarálag feli í sér skattaívilnun í formi aukinna frádráttarheimilda frá skattskyldum tekjum og myndar fyrningarálagið þannig hvata til fjárfestinga í grænum eignum og stuðlar að grænni umbreytingu.

Virðulegur forseti. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við þessum hugmyndum. Það var eftir þessu kallað á haustmánuðum, þegar tvísýnt var með framlengingu á gildandi kjarasamningum, vegna ólíkrar sýnar, skulum við segja, á milli aðila vinnumarkaðarins um grunnforsendur lífskjarasamninganna. Þá var kallað eftir því af atvinnurekendum að stjórnvöld myndu grípa til aðgerða til að létta mönnum þá erfiðu tíma sem við nú göngum í gegnum og það höfum við verið að gera með ýmsum aðgerðum.

Ég ætla að nefna hér nýlega samþykkta lækkun atvinnutryggingagjalds, sem lækkar tímabundið árið 2021, sem dæmi um það. Við höfum verið að gera breytingar á atvinnuleysisbótum sem er sömuleiðis hugsað til að létta undir og hér er mál sem á rætur sínar að rekja til þessa sama samtals og hefur fengið mjög góðar viðtökur hjá Samtökum atvinnulífsins þar sem menn telja að reglur af þessum toga geti losað um fjárfestingu sem ella myndi bíða þar til óvissan myndi minnka o.s.frv. En þetta frumvarp felur í sér mjög sterkan hvata til að hraða áformum um fjárfestingar sem kunna að hafa verið á teikniborðinu eða komast mögulega í forgang núna vegna málsins verði það samþykkt hér á þingi.

Þarna er verið að gera ráð fyrir verulegum fjárhæðum. Við erum hér með mat á þessu frumvarpi og það verður að segjast eins og er að mat á aðgerð sem þessari er mjög mikilli óvissu háð en við gerum í frumvarpinu ráð fyrir því að heildarkostnaður breytinganna geti numið allt að 4 milljörðum að núvirði. Þar væru um 400 milljónir sem ættu rætur sínar í skattfrestuninni en 3,6 milljarðar vegna lækkunar tekjustofna vegna ívilnana grænna fjárfestinga. Ljóst er þó, eins og ég segi, að hér er um mjög mikla óvissu að ræða. Í þessu samhengi eru þessir 4 milljarðar bara skattahagræðið en fjárfestingin verður auðvitað ákveðið margfeldi af þessari fjárhæð og munar um það við þær aðstæður sem nú eru uppi vegna þess að atvinnuvegafjárfesting hefur dregist hressilega saman, eins og ég rakti hér áður.

Ríkið hefur reynt að bregðast við með því að hækka sitt fjárfestingarstig. Sveitarfélögin eru ekki að fjárfesta af sama krafti og ríkið um þessar mundir þannig að opinbera fjárfestingarstigið mætti vera hærra en mestu munar þó um að atvinnulífið hefur haldið að sér höndum og þessu máli er teflt fram inn í þá stöðu til að hvetja menn til þess að fara í fjárfestingar.

Ég bind vonir við að þingið geti unnið hratt í þessu máli. Ég vonast til þess. Ég tel það skipta miklu máli. Við bjóðum fram alla aðstoð úr fjármálaráðuneytinu við efnahags- og viðskiptanefnd meðan málið er þar í vinnslu. Ég tel að það skipti miklu vegna þess að við erum að horfa á það tímabil sem er í raun og veru hafið frá áramótum, þegar við lítum til þess á hvaða tíma fjárfestingar geta átt sér stað. Hver vika og hver mánuður getur skipt máli til þess að það liggi fyrir hver afstaða þingsins er til þess að fjárfestingar eigi sér stað á þessu ári. Það er einmitt núna sem mestu skiptir að tefla fram úrræðum inn í stöðuna.

Virðulegur forseti. Eins og áður segir vil ég leggja til að frumvarpið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr.