151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

breyting á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála .

400. mál
[16:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég ætla reyndar að gera pínulítinn ágreining um að þessi mál séu kannski of afmörkuð og smá til að fara inn í stærra samhengi. Þá kemur aftur að því sem ég hef sagt áður að í staðinn fyrir að vera að vinna hluti í smáskrefum og einhverjum bútasaum þá gæti verið affarasælla, og ég tel það affarasælla, að taka stærri grundvallarstef, þrátt fyrir að þessi mál sem hér eru undir eða kunna að vera undir séu kannski smærri í sniðum heldur en mörg önnur sem aðrar úrskurðarnefndir eru að fjalla um dagsdaglega. Nú þekki ég ekki alveg hvernig það er í þessum nefndum sem hér eru, hvort það hafi verið langir biðlistar eða langur málsmeðferðartími en það hefur aftur á móti einkennt sumar aðrar nefndir, kannski vegna þess að þær eru hver um sig ekki burðugar þannig í rekstri og hafa ekki yfir miklum mannafla að ráða. Einmitt þess vegna er kannski ástæða til að velta því upp hvort hér sé ekki kominn tími til að fara að vinna í alvöru að því að koma upp stjórnlagadómstól, líka til þess að auðvelda almenningi lífið, að það sé til einhvers staðar skrifstofa eða gátt þar sem hægt er að koma málum fyrir með fljótvirkum og skilvirkum hætti. Þannig að ég endurtek eiginlega hvatningu mína til hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar að móta sér stefnu í því að koma hér á fullburða stjórnsýsludómstól.