151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

breyting á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála .

400. mál
[16:17]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi breyting hangir saman við lögin frá því í fyrra sem við samþykktum hér, um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Þannig er verið að styrkja þessar litlu afmörkuðu úrskurðarnefndir, með því að færa þær til að mynda til starfsgreinasamtaka eða frjálsra félagasamtaka. Eitt dæmi um nýja slíka nefnd sem kemur til vegna þeirra laga er úrskurðarnefnd Bílgreinasambands Íslands og Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Annar ágreiningur fer þá til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa, sem búið er að styrkja verulega líka, þannig að það er betri neytendavernd með þessum breytingum. Það eru almennt ekki mjög langir biðlistar þarna eða langur málsmeðferðartími eða margt fólk að bíða eftir niðurstöðu. Það er mismikið að gera hjá þessum nefndum og þær eru vissulega missterkar og -burðugar. En það kemur fyrir að það er kvartað yfir skorti á sérþekkingu, sérstaklega þegar þær taka of breitt svið og fá ekki þeim mun fleiri mál, það getur í einhverjum tilfellum haft áhrif. En með því að færa þær nær bransanum, ef svo má segja, er alla vega sérfræðiþekkingin styrkt. Ég er því þeirrar skoðunar að þessi þróun sé af hinu góða. Úrskurðarnefndir eftir málefnasviðum eru þess vegna jákvæðar en það þarf auðvitað að hafa eitthvert jafnvægi í því. Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa er kannski þannig nefnd sem hv. þingmaður er hér að fjalla um, sem tekur svolítið það sem ekki á heima annars staðar. Með því að koma á fót sjálfstæðum nefndum með þessu fyrirkomulagi erum við vonandi að bæta sérþekkinguna og restin sem ekki fellur þar undir fer til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.