151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Eðli málsins samkvæmt er ýmislegt gott og miður gott í þessu frumvarpi sem og öðrum. Ég vil leggja áherslu á að frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem fundaði í öllum landsfjórðungum, sennilega með hátt í 400 aðilum, og vann síðan úr athugasemdum sem komu fram á þeim fundum og gerði þá tillögu sem birtist í skýrslunni og frumvarpið er að stærstum hluta unnið eftir.

Varðandi það að erfitt sé að veiða upp á kíló á dag þá er það vissulega rétt. Hvort hægt er að finna einhverjar leiðir, af því að hv. þingmaður kallar eftir því hvort möguleiki væri á einhverjum sveigjanleika í þessu, þá kann svo vel að vera. Nefndin tekur það þá bara upp í umfjöllun sinni um málið.

En ég ætla aðeins að koma aftur að því, vegna þess að það tengist að hluta til því sem hv. þingmaður spurði um varðandi heimildir sem nýtast ekki, hvernig hægt sé að nýta þær, og breytileika í tímasetningum á strandveiði, að við verðum að muna að þetta eru pottar. Þessu er ekki úthlutað á hvern bát eða skip og það gerir vinnuna við stjórnunina á þessu allt öðruvísi en í aflamarki, þar sem hver útgerð ber bara ábyrgð á þeim heimildum sem hún ræður yfir og hefur heimildir til að sækja. En hér er þetta allt í einum potti og svo er þetta að hluta til breytilegt, nánast ólympískar veiðar, þar til viðkomandi pottur er uppurinn. Þess vegna geta verið, og eru raunar, (Forseti hringir.) allt önnur lögmál um með hvaða hætti við stýrum sókn í pottana en í aðra hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.