151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

stjórn fiskveiða.

418. mál
[17:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er á því að það eigi frekar að styrkja strandveiðarnar heldur en margt annað í þessum félagslega hluta. Eins og hv. þingmaður nefnir þá erum við komin með sérstakan byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar og hefur möguleika á að gera samninga við fyrirtæki. Það þarf auðvitað að hugsa það vel og vanda vel til verka til að það tryggi í raun uppbyggingu. Mönnum hafa verið svolítið mislagðar hendur með það, því miður, en þeir læra af reynslunni. Sums staðar hefur þetta gengið mjög vel og annars staðar hefur þetta kannski verið brösótt. Þess vegna er hinn almenni byggðakvóti kannski ekki eins heilagur í mínum huga eftir að sértæki byggðakvótinn kom til. Ég tel að það megi horfa til ónýttrar línuívilnunar sem er nú að breytast, mikið er um báta með beitningavélum og tímarnir breytast í þeim efnum, og einhverjum hluta sem fer í almenna byggðakvótann í dag væri betur fyrir komið í strandveiðum þar sem það hefur sýnt sig að það rennur til þeirra aðila og þeirra byggðarlaga sem við viljum styrkja með félagslegum aðgerðum sem þarna liggja undir. Ég nefndi áðan í ræðu að því miður hefur raunin orðið sú að hluti af þessum almenna byggðakvóta lendir í höndum á útgerðum sem hafa nægt aflamark fyrir, hafa nægan kvóta. Það er nú ekki uppleggið með almenna byggðakvótanum og hann hefur oft verið mjög umdeildur því að það hafa ekki verið nægilega skýrar leikreglur.