151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

horfur í ferðaþjónustu.

[10:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi næstu skref: Það er auðvitað þannig að þau úrræði sem við höfum farið í eru í fullri virkni. Við erum nú þegar með þau úrræði í gangi og það fram eftir vori hið minnsta. Ferðagjöfin er enn í gangi. Við framlengjum gildistíma hennar til að fólk geti nýtt hana, enda vorum við á sama tíma og hún var í virkni með þannig takmarkanir að það hafði áhrif. Við höfum lengt tímann og ég er að sjálfsögðu opin fyrir slíkum hugmyndum, það er lítill tilkostnaður fyrir töluvert mikil umsvif. Ef við sjáum fram á að taka á móti fáum ferðamönnum og ef Íslendingar munu frekar ferðast hér en fara utan þá er það lítill tilkostnaður fyrir ríkið að hvetja enn frekar til ferðalaga. Við sáum það í sumar að það skipti mjög miklu máli. En fyrir stóru myndina í íslenskri ferðaþjónustu þá eru áhrifin mjög lítil í heildina vegna þess að okkar innlendi markaður er bara svo ofboðslega lítill. Ég veit ekki hvort til er annað land sem er með jafn lítinn innanlandsmarkað og jafn háð ferðaþjónustu og þar af leiðandi jafn háð erlendum ferðamönnum og Ísland.