151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

samningar um bóluefni.

[10:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem oddvita stærsta ríkisstjórnarflokksins. Í fréttum Stöðvar 2 síðastliðinn mánudag var haft eftir sóttvarnalækni þegar verið var að fjalla um öflun bóluefna, sem er umræða sem við þekkjum vel frá síðustu dögum og vikum þar sem mörgum hefur þótt upplýsingaóreiðan vera fullmikil, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið gerði samninga við Lyfjastofnun Evrópu. Samkvæmt þeim er Ísland skuldbundið til að kaupa bóluefni í samræmi við samningana. Það er jafnframt skuldbundið til að kaupa ekki bóluefni fram hjá þeim samningum. Það er engin vinna í gangi að kaupa bóluefni fram hjá þessum samningum.“

Þetta er sem sagt haft beint eftir sóttvarnalækni.

Af því að málum er snúa að öflun bóluefna virðist hafa verið komið í þann farveg, m.a. með fréttum af því að hæstv. forsætisráðherra hafi aukið aðkomu sína að öflun bóluefnis í desember, virðist þetta vera einhvers lags samstarfsverkefni ríkisstjórnarinnar. Fyrir utan upplýsingaóreiðuna og það klúður sem virðist umlykja málið hvað öflum bóluefnis varðar, þá er sú staða sem sóttvarnalæknir lýsir þarna þeirrar gerðar að ég verð að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem oddvita stærsta stjórnarflokksins, í fyrsta lagi hvort þessi nálgun, þ.e. að fyrirgera rétti Íslands til samnings utan samflots við Evrópusambandið, hafi verið samþykkt í ríkisstjórn. Í öðru lagi: Eru áætlanir uppi hjá ríkisstjórninni um að lagfæra þessa stöðu og losa okkur undan þessum takmörkunum, og þá hvernig? Og hvenær má eiga von á fréttum af þeim ákvörðunum sem nauðsynlegar eru til að Ísland sé fært að nýta fullveldi sitt í þessum efnum, landi og þjóð til heilla?