151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

nýsköpun og klasastefna.

[10:59]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa síðari spurningu. Klasastefnan á að koma í febrúar, ég gleymdi að nefna það í fyrra svari mínu, og afstaða til fjármagns er þá tekin þegar hún liggur fyrir og enginn verðmiði er kominn á það enn, það samtal er í raun eftir. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er einmitt þetta samstarf sem skiptir svo miklu máli og einfaldlega viðhorf, viðhorf til samstarfs og trúin á hverju það getur skilað þegar hið opinbera og einkamarkaðurinn taka höndum saman með háskólasamfélaginu o.s.frv. Ég hef að sjálfsögðu mjög miklar áhyggjur af því mikla atvinnuleysi sem er. Stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að bæta úr því. Öll þau úrræði sem við höfum farið í hjálpa til. Við erum með skýra stefnu á nánast öllum málefnasviðum þannig að ég lít svo á að við séum búin að taka ákvörðun um hvert við stefnum. Svo erum við bara komin út í almenna nálgun á hvað það er sem þarf til að auka súrefni til atvinnulífsins. Í því felast m.a. mögulegar skattalækkanir fremur en skattahækkanir. Kjaramál koma inn í það, þróun launa. (Forseti hringir.) Við vitum að það að hækka laun verulega hefur bein áhrif á fjölda starfsmanna. Þá erum við komin í þessa stærri mynd. (Forseti hringir.) En við höfum tekið ákvörðun um þá stefnu almennt út frá helstu málaflokkum.