151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

Húsnæðiskostnaður.

[11:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er ólga á leigumarkaði. Vísitala leiguverðs samkvæmt þjóðskrá hefur tvöfaldast síðan 2011 en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um þriðjung. Tvöföldun leiguverðs en þriðjungs hækkun neysluverðs. 23 fermetra stúdíóíbúð í Vesturbæ er á 110.000 kr., 80 fermetra íbúð í Hafnarfirði á 200.000 kr., 100 fermetra íbúð í Vogunum á 300.000 kr. Reiknivél fyrir neysluviðmið árið 2019 á vef félagsmálaráðuneytis fyrir einstætt foreldri með barn gerir ráð fyrir 200.000 kr. heildarútgjöldum án húsnæðiskostnaðar. Ef við erum kannski hógvær og finnum íbúð til leigu á 200.000 kr., miðað við dæmin að ofan, með hita og rafmagni, erum við að tala um 400.000 kr. í heildarkostnað. Til þess þarf um 550.000 kr. í heildarlaun og ekki króna í afgang, hvað þá króna til að safna fyrir innborgun í íbúð. Hverjir hafa efni á þessu? Samkvæmt vefnum tekjusagan.is þurfum við að fara allt upp í sjöttu tekjutíund fyrir konu og einungis fjórðu tekjutíund fyrir karl, og það með barnabótum og öllu. Það er sem sagt helmingur fólks í þessari stöðu sem hefur ekki efni á því að fylgja neysluviðmiðum og vera á leigumarkaði.

Miðað við þá stöðu vil ég spyrja ráðherra: Hvernig gengur þetta dæmi upp? Er þessi staða ekki ljóslifandi dæmi um að efnahagsstefna stjórnvalda á undanförnum áratug hefur ekki virkað, efnahagsstefna sem hefur skilið fólk eftir út undan? Áður en fjármálaráðherra fer með fyrirsjáanlegu möntruna um auknar ráðstöfunartekjur og lækkun skatta þá bendi ég aftur á þetta dæmi. Þetta er raunveruleikinn sem birtist okkur þrátt fyrir allar aðgerðir ríkisstjórna á undanförnum áratug. Það þýðir lítið að byggja þak á hús sem er ekki með neinn grunn, hæstv. ráðherra. Það er einungis blekkingaleikur til að fela þá staðreynd að botninn er suður í Borgarfirði. Þá hlýtur spurningin að vera: Hvað næst, í staðinn fyrir stefnu sem skilur helminginn eftir?