151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

húsnæðiskostnaður.

[11:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, þetta er mikilvægt mál sem hv. þingmaður setur hér á dagskrá, húsnæðismarkaðurinn á Íslandi. Hann, eins og aðrir markaðir sem eru skilvirkir, lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar og það sem verið hefur sérstakt áhyggjuefni er framboð af leiguhúsnæði á undanförnum árum. Við höfum gert átak í að bregðast við þeirri stöðu. Við höfum t.d. gert breytingar á skattalögum til þess að hvetja eigendur húsnæðis til að leigja það út. Það gerðum við með því að lækka fjármagnstekjur af leigutekjum um helming á sínum tíma. Við höfum líka farið í sérstök önnur úrræði, eins og húsaleigubætur fyrir þá sem sitja uppi með háa leigu.

En þegar við fórum með það mál í gegnum þingið komu ábendingar til okkar m.a. um að ef maður gerir ekkert annað en að auka möguleika fólks til að greiða leiguna með húsaleigubótum og gerir ráðstafanir á tekjuendanum hjá eiganda húsnæðisins til að hann hafi skattafslátt, þá kann maður að vera að ýta undir hækkun á leiguverðinu, af því að þegar upp er staðið verður framboðið að vera til staðar. Hér hafa sveitarfélögin að sjálfsögðu gríðarlega ríkri skyldu að gegna til að tryggja að með uppbyggingu nýs húsnæðis sé verið að mæta þeirri húsnæðisþörf sem er uppi hverju sinni. Þetta var stór hluti af samtali sem við áttum í tengslum við lífskjarasamninginn. Ég tel að ef við skoðum ráðstöfunartekjurnar heilt yfir, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá höfum við náð miklum árangri. En þarna er markaður sem er dálítið erfitt að eiga við og leiguverðið verður líka á endanum alltaf eitthvert hlutfall af byggingarkostnaðinum. Það má ekki horfa fram hjá því.