151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Þetta eru áhugaverðar breytingar sem eiga sér stað á lögreglulögunum og að ýmsu leyti til bóta. Mig langar hér í andsvörum við hæstv. ráðherra að nefna tvö atriði sem ég rek augun í. Í fyrsta lagi það að ekki hafi verið talið tilefni til að skoða nánar með hvaða hætti þessi lög hefðu áhrif á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, þá er ég að vísa í breytingar á lögum um nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, í ljósi þess að við höfum vissulega ákveðnar skuldbindingar gagnvart því hvað telst vera sjálfstæður og óháður rannsóknaraðili með störfum lögreglu. Eins og hæstv. ráðherra veit eflaust kemur það til vegna dómasögu Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur fjallað mikið um réttinn til lífs og bann við pyndingum og að jákvæðar skyldur á hendur aðildarríkja feli í sér að til að það megi vernda þessi mikilvægu réttindi með fullnægjandi hætti þurfi að tryggja að allar rannsóknir á starfsháttum lögreglu sem hafa áhrif á réttinn til lífs eða mögulega bann við pyndingum séu sjálfstæðar, óháðar og marktækar. Héraðssaksóknari fer með þetta eftirlitsvald þegar kemur að rannsókn á mögulegum brotum lögreglumanna í starfi og þar sem er verið að færa héraðssaksóknara líka inn í þetta lögregluráð þá velti ég fyrir mér hvort það hafi verið skoðað sérstaklega að tryggja sem best sjálfstæði héraðssaksóknara frá öllum öðrum lögregluembættum, hvort þetta hafi verið greint að einhverju marki. Ég sakna þess að sjá þetta í greinargerðinni þegar kemur að mati á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Var metið hvort þetta nýja fyrirkomulag uppfylli kröfu Mannréttindadómstólsins um sjálfstæða, óháða og marktæka rannsókn á störfum lögreglu?