151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess svolítið að sjá greiningu á því hvort þessi skilyrði sem Mannréttindadómstóllinn setur fyrir trúverðugu og sjálfstæðu eftirliti á hendur lögreglu hafi farið fram, hvort þau skilyrði sem eru sett hafi verið uppfyllt og að það sé öruggt. Mér finnst t.d. svolítið skrýtið að héraðssaksóknari fari bæði með rannsókn á brotum gegn lögreglumönnum og brotum sem lögreglumenn eiga að hafa framið. Það þarf í sjálfu sér ekkert að vera neitt óeðlilegt en mér finnst svolítið sérstakt að hafa þessi tvö verkefni saman hjá einu og sama embættinu. Þegar það svo bætist við að sá situr í ráðum með öllum lögreglustjórum landsins þá hafa borgararnir a.m.k. alveg ástæðu til að spyrja sig hvort um raunverulegt sjálfstæði sé að ræða. Ég hins vegar efast alls ekkert um sjálfstæði og heilindi héraðssaksóknara, það má ekki skilja mig þannig, heldur eru bara ákveðnir staðlar, það eru ákveðin viðmið sem eru höfð að leiðarljósi þegar kemur að því að meta sjálfstæði rannsóknaraðila. Þess vegna hefði ég viljað sjá einhverja greiningu fara fram með mið af þeim viðmiðum, en hvað um það.

Ég ætlaði líka að spyrja hæstv. ráðherra um annað mál sem ég spurði hana um áður þegar þessi lög voru fyrst lögð fram. Það var þetta með að hægt sé að afhenda erlendum lögreglumönnum lögregluvald. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti útlistað fyrir mér hvaða mörk eru sett á þetta lögregluvald. Hvað felst nákvæmlega í lögregluvaldi? Hvaða valdheimildir getur ríkislögreglustjóri látið erlenda lögreglumenn hafa og hvaða takmörk verða sett á slíkt vald? Hvernig verður því fylgt eftir og hvar verður hægt að sjá fyrir hinn almenna borgara hvaða lögregluvald erlendir lögreglumenn fara með hér á landi hverju sinni?