151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[12:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um þau viðmið sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi eftirlitið með lögreglunni, við erum að fylgja þeim. GRECO hefur fagnað þessum breytingum á nefndinni. Þessar reglur eða viðmið koma m.a. fram í skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins og eiga að stuðla að árangursríkari rannsókn og tryggja sjálfstæði, hæfni, skilvirkni og gagnsæi í þessum málum og þátttöku brotaþola, en þeim skal þá fylgja eftir varðandi einhver atriði sem gerast í umsjá lögreglu og veita leiðbeiningar. Við erum við að uppfylla þau skilyrði og þau viðmið með þessum breytingum.

Varðandi erlenda lögregluvaldið þá verður ríkislögreglustjóri að samþykkja slíkt. Það er sama vald og getur ekki verið meira en lögreglumenn hér á landi fara almennt með eða takmarkaðra, þannig að það sé skýrt. Þetta er fyrst og fremst sett inn til að geta fullgilt Prüm-samkomulagið og vegna þess að þegar íslensk löggæsluyfirvöld eru kannski að sinna réttarbeiðnum getur verið nauðsynlegt að óska eftir aðstoð hjá ríki og biðja um að lögreglumenn verði sendir hingað til lands. Það eru dæmi um slíkt. En aðalatriðið er að stjórn allra lögregluaðgerða sem erlendir lögreglumenn taka þátt í verður alltaf hjá íslensku lögreglunni, þannig að við erum ekki að opna fyrir eitthvað annað. Þetta er í mesta lagi, eins og ég sagði, sama vald og lögreglumenn hérlendis fara með eða takmarkaðra og á við einstakan þátt eða einstaka aðgerð. Ríkislögreglustjóri ákveður síðan hverjir þetta eru. Í sama tilgangi er ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum, að fengnu samþykki, heimilt að senda íslenska lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis. Við störf sín erlendis njóta þeir sömu réttinda. Þannig að þetta ætti að vera alveg skýrt. En ég þekki ekki alveg hvernig þetta verður birt hjá ríkislögreglustjóra og það er eitthvað sem þarf að skoða.